Davíð og Golíat

1.Samúelsbók 17:1-58

Ísraelsmenn áttu í stríði við nágranna sína, Filista. Herirnir stóðu andspænis hvor öðrum, gráir fyrir járnum. Þá gekk einn Filistanna fram, sem hét Golíat. Sá var risi að vexti. Hann æpti: ,,Kjósið einn mann úr ykkar röðum, sem þorir að berjast við mig. Ef honum tekst að fella mig þá gefumst við upp. Ef ég felli hann skuluð þið ganga okkur á hönd. Komið nú með einhvern úr ykkar liði svo við getum barist.”

Golíat var með eirhjálm á höfði og klæddur í eirbrynju. Skjaldsveinn hans stóð skammt frá honum  með skjöldinn.

Þegar Sál konungur og menn hans sáu Golíat og heyrðu hvað hann sagði urðu þeir skelkaðir. Í fjörutíu daga óð Golíat og vildi ólmur berjast. Hann lét ófriðlega, gerði hróp að mönnum og storkaði þeim. En enginn þorði að berjast við hann.

Meðan Sál konungur var á vígvellinum sat Davíð yfir fénu úti í haga. Nokkrir bræðra hans höfðu farið með Sál í stríðið gegn Filistum. Ísaí, faðir þeirra, sendi nú Davíð til að spyrja hvernig þeim bræðrunum liði.

Davíð kom þar sem herinn var og náði tali af bræðrum sínum. Þá gekk Golíat aftur fram, æpti sem fyrr og var ógurlegur ásýndum. Allir hermenn Ísraels lögðu á flótta þegar þeir sáu hann því þeim stóð mikil ógn af honum.

Þeir sögðu Davíð frá því hverju konungurinn hefði lofað: ,,Sá sem fellir Golíat fær að launum mikil auðæfi og dóttur konungsins.”

Þá sagði Davíð við Sál:,, Ég skal berjast við Golíat því hann hefur smánað hermenn hins lifandi Guðs.”

,,Þú getur ekki barist við hann. Þú ert bara drengur,” svaraði Sál.

En Davíð var á öðru máli:,,Ég hef gætt hjarða föður míns. Ef ljón kom eða björn og tók kind úr hjörðinni, elti ég villidýrið, sló það niður og reif bráðina úr kjafti þess. Drottinn bjargaði mér úr klóm ljóna og bjarna og eins mun hann bjarga mér undan Golíat.”

Þá sagði Sál við Davíð: ,,Farðu þá. Drottinn veri með þér.”

Sál færði Davíð í herklæði sín. Hann lét eirhjálm á höfuð honum og færði hann í eirbrynju. Davíð tók sverð koungsins sér í hönd. Síðan reyndi hann að ganga um í þessum klæðum.

Hann sagði við Sál: ,,Ég get ekki verið í þessum herklæðum því ég er óvanur þeim. Þau eru alltof þung. Ég get ekki hreyft mig í þeim.”

Og hann var færður úr herklæðum Sáls.

Davíð tók fimm slétta og ávala steina upp af jörðinni og lét í smalatösku sína. Síðan tók hann staf sinn og slöngvu og hélt af stað til móts við Golíat.

Þegar Golíat kom auga á Davíð reiddist hann Ísraelsmönnum ógurlega fyrir það að senda svona strákling gegn sér. Davíð tók stein úr smalatösku sinni. Hann slöngvaði honum og hitti Golíat beint í ennið svo hann féll kylliflatur á grúfu.

Þegar Filistarnir sáu að hetjan þeirra var fallin lögðu þeir á flótta.

Upp frá þessum degi var Davíð alltaf í höllinni hjá Sál.

To Top