Hvað ætli það þýði?
Ábyrgð er næstum því það sama og að passa upp á eitthvað. Þegar við eigum að passa upp á eitthvað berum við ábyrgð á því.
Börn bera ekki eins mikla ábyrgð og fullorðið fólk. Fullorðna fólkið ber ábyrgð á börnunum. Fullorðna fólkið ber ábyrgð á því að börnin fái að borða, séu hrein, læri heima, mæti í skólann og læri að haga sér vel.
Börnin bera ábyrgð á því hvernig þau haga sér og hvernig þau fara með dótið sitt. Hvernig þau koma fram við aðra.
Við berum í rauninni vissa ábyrgð á öllu fólki. Það er á okkar ábyrgð að vera heiðarleg, bera virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, vera réttlát, gæta þess að allir hafi jafnan rétt, til dæmis með því að skilja engan útundan. Við berum líka ábyrgð á því að aðrir geti notið frelsis og leikið sér eða gert það sem þá langar til. Okkar ábyrgð liggur líka í því að sýna öðrum væntumþykju.
Góði Guð, hjálpaðu okkur að vera ábyrgðarfull. Amen