Fyrir mörgum árum, þegar langafi var lítill, gerðist þessi saga, í litlu sjávarþorpi úti á landi.
Stór bátur kom að bryggjunni drekkhlaðinn spriklandi fiski. Ilmur af ferskum, nýveiddum fiski barst um alla bryggjuna og það glampaði á roðið. Báturinn vaggaði á sjónum upp við bryggjuna. Það var gott að hann var kominn að landi, því nú gátu allir fengið fisk í matinn.
Lítill snáði stóð við bryggjupollann og fylgdist með öllu því sem fram fór um borð í bátnum. Strákurinn var fátækur. Pabbi hans var langt úti á sjó og heima beið mamma hans með sex lítil og svöng börn. Strákurinn hét Gummi.
Sjómennirnir hömuðust við vinnuna. Gumma langaði til þess að verða sjómaður þegar hann yrði stór. Hann var ennþá lítill, bara sjö ára.
Allt í einu kom þrekvaxinn sjómaður til hans. „Sæll Gummi minn. Ég ætla að senda henni mömmu þinni fisk í soðið. Farðu með hann heim.“
Gummi varð glaður. Það var gaman að geta fært björg í bú. Það hafði verið svo lítið að borða undanfarið og þau voru öll svo svöng.
Sjómaðurinn batt marga fiska saman í eina kippu og rétti Gumma. Hann þakkaði sjómanninum fyrir og gekk svo af stað heim á leið.
Mikið óskaplega voru fiskarnir þungir. Enda voru þetta engir tittir. Þeir voru áreiðanlega þyngri en hann sjálfur. Gummi rogaðist með fiskana dágóðan spotta og reyndi að láta þá ekki snerta jörðina. Hann gat varla borið þá lengra. Hann var alveg að gefast upp.
Þá hugsaði hann með sér: – Ég ætla bara að bera þá að næsta staur, en ekki lengra. Hann gekk þungum, rólegum skrefum með fiskana að næsta staur. Þegar hann var kominn þangað hvíldi hann sig svolítið og hugsaði með sér: – Kannski ég gangi að næsta staur og svo alls ekki lengra.

Áfram gekk hann með erfiðismunum og rogaðist með fiskkippuna. Hann sá staurinn nálgast smám saman og loks var hann kominn alla leið að honum. Hann verkjaði í handleggina og hvíldi sig aftur enn um stund en hugsaði svo: – Ég gæti kannski komist með fiskana að næsta staur, en svo alls ekki lengra.
Gummi þrammaði af stað. Loks var hann kominn að staurnum og þá sá hann að nú var stutt heim. Kannski kæmist hann með fiskana alla leið. Gummi dró andann djúpt. Hann kenndi til í handleggjunum og svitinn bogaði af andlitinu.
Loks komst hann heim, með alla fiskana. Rjóður í kinnum rétti hann mömmu sinni stóru fiskana. Mamma hans ljómaði af gleði. Hún hrósaði litla stráknum sínum fyrir dugnaðinn.
Um kvöldið fengu þau öll soðna ýsu. Gumma fannst þetta vera besta ýsa sem hann hafði nokkru sinni fengið.
Þegar Gummi varð fullorðinn og erfiðleikar steðjuðu að hugsaði hann eins og forðum: Bara að næsta staur. Ekki gefast upp.

To Top