Postulasagan 2:1-47
Það voru fimmtíu dagar liðnir frá páskum. Hvítasunnuhátíðin var gengin í garð. Mikill fjöldi Gyðinga úr öllum landshornum var saman kominn til að halda hátíðina í Jerúsalem auk fjölda manna frá öðrum löndum kringum Miðjarðarhafið.
Lærisveinarnir sátu inni í húsi nokkru ásamt mörgum öðrum mönnum. Yfir öllu hvíldi kyrrð og ró. Menn sátu og báðust fyrir.
Skyndilega heyrðist mikill hvinur. Hvað var þetta? Þetta líktist einna helst stormþyt. Lærisveinarnir og vinir þeirra litu upp. Þá sáu þeir eitthvað sem svipaði til eldsloga og sveif hann um í loftinu. Eldsloginn kvíslaðist í fleiri smærri loga sem settust yfir höfuð hvers og eins í herberginu. Þeir fundu hvernig kærleikurinn hreif þá og gleðin fyllti hugi þeirra. Þeir þökkuðu Guði og báðu til hans og hver talaði sitt tungumál. Það var Guðs heilagi andi sem var kominn yfir þá. Hjálparinn, huggarinn, sem Guð hafði lofað að senda þeim, var nú kominn.
Hvinurinn heyrðist um alla Jerúsalemborg. Menn flykktust um borgina til að sjá það sem gerst hafði. Mannþyrping full forvitni og undrunar var saman komin fyrir utan hús lærisveinanna og sá og heyrði í þeim.
Fólk sagði hvað við annað:,,Eru þessir menn ekki frá Galíleu? Hvernig stendur á því að þeir tala svona mörg framandi tungumál? Við erum komin alla leið frá Mesópótamíu, Júdeu og Kappadókíu, frá Pontus og Asíu, já frá Frýgíu og Pamfýlu, frá Egyptalandi, Lýbíu og Róm.
Hvernig stendur á því að við skiljum þá og heyrum þá tala okkar eigið tungumál og segja frá stórmerkjum Guðs? Hvað er eiginlega á seyði?”
Þá steig Pétur fram og sagði:,,Hlustið á mig! Jesús frá Nasaret var af Guði sendur og vann mörg kraftaverk og undur meðal ykkar. Þið tókuð hann höndum og líflétuð hann. En Guð hefur reist hann aftur við til lífsins. Hann sneri aftur til Guðs en hann sendi okkur hjálpara, heilagan anda Guðs.
Það er sá heilagi andi sem talar í gegnum okkur. Jesús, sem þið krossfestuð, var sannarlega Messías, sonur Guðs.”
Margir þeirra sem hlýddu á Pétur skildu að orð hans voru sönn og þau snertu þá.
Þeir spurðu:,,Hvað eigum við að gera til að fá fyrirgefningu?”
Pétur svaraði:,,Biðjið um fyrirgefningu. Hefjið nýtt líf og látið skíra ykkur í nafni Jesú Krists. Þá munuð þið einnig fá Guðs heilaga anda.”
Margir tóku skírn þennan dag. Þeir sem trúðu á Jesú seldu allt sem þeir áttu. Þeir skiptu öllu milli sín svo hver fékk það sem hann þurfti. Þeir héldu hópinn og komu saman á hverjum degi í musterinu til að biðjast fyrir.