Biblían er bók með mörgum blaðsíðum og þúsundum orða. Hún er aðalbókin í kristinni trú.
Þegar kristið fólk kemur saman les það gjarnan upp úr Biblíunni svo allir heyri.
Stundum vill fólk bara hana lesa í einrúmi.
En hver skrifaði Biblíuna? Og hvenær?
Hvað stendur í henni?
Biblían er safn bóka, eiginlega lítið bókasafn. Elstu bækurnar geyma efni frá Gyðingum. Þar má finna alls konar frásagnir, lög og sögu Gyðinga.
Margt af þessu varðveittist munnlega og barst þannig frá einni kynslóð til kynslóðar.
Foreldrar sögðu börnum sínum frá og þau sínum börnum og svo framvegis. Síðan var allt þetta efni skrifað á hebresku, tungumáli Gyðinga – var það gert fyrir meira en 2000 árum. Þessar bækur kalla kristnir menn Gamla testamentið.
Það er fyrri hluti Biblíunnar.
Fyrsta sagan í Biblíunni er reyndar mjög gömul. Hún segir frá því hvernig allt varð til.
Sagan segir að Guð hafi í upphafi skapað himin og jörð.
Heimurinn sem Guð skapaði var fallegur og góður.
Önnur saga segir frá því sem gerðist þegar fólkið á jörðinni var orðið vont. Það reifst og slóst.
Nói hét maður. Guð lét Nóa smíða stórt skip sem líka er kallað örk. Nói fór um borð í örkina með fjölskyldu sína. Hann tók líka með sér dýr en aðeins tvö af hverri tegund, karlkyn og kvenkyn. Guð lét steypiregn dynja yfir jörðina og vatnið óx og óx. En örkin hans Nóa var örugg í hendi Guðs. Þegar flóðið var búið lét Guð skæran regnboga ljóma á himni. Það var merki Guðs um það að hann mynd aldrei aftur láta svona flóð verða í heiminum.
Aðrar sögur segja frá því þegar Guð ákvað að láta mann sem hét Abraham verða ættföður mikillar þjóðar, Gyðingaþjóðarinnar.
Guð stóð við loforð sín. Hann sendi þjóðinni vitra leiðtoga. Einn þeirra hét Móse og sá kom með lögmál Guðs til þeirra: Boðorðin tíu. Þau leiðbeina okkur í lífinu.
Móse sagði: ,,Það er aðeins einn Guð og við eigum að elska hann og hlýða honum. Við eigum að elska hvert annað jafnmikið og við elskum okkur sjálf.”
Stundum fór fólkið eftir boðorðum Guðs og allt gekk vel. Davíð var voldugur konungur og sigraði óvini sína. Þjóðin bjó lengi við frið á hans tíma.
En stundum gleymdi þjóðin boðorðunum. Þá gekk allt illa hjá henni. Óvinir þjóðarinnar sigruðu hana oft í stríði.
Þeir sem hvöttu þjóðina til dáða og fluttu henni boðskap vonar voru kallaðir spámenn. Þeir sögðu að dag einn myndi Guð senda konung líkan Davíð sem myndi bjarga þjóðinni. Eftir það myndi hún aldrei gleyma Guði.
Kristið fólk trúir því að Jesús Kristur sé frelsari heimsins og að Guð hafi sent hann.
Seinni hluti Biblíunnar segir frá Jesú, orðum hans og verkum. Þar eru fjórar bækur sem fjalla aðallega um hann og eru þær kallaðar guðspjöll. Þau eru kennd við Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. Þú getur tildæmis lesið um fæðingu Jesú í guðspjalli Matteusar og Lúkasar.
Þú getur lesið í guðspjöllunum um það þegar Jesús sagði fólkinu frá Guði.
Við lesum í guðspjöllunum orð Jesú: ,,Komið og hlustið á orð hans. Fyrirgefið hvert öðru og Guð mun fyrirgefa ykkur. Elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur.”
Þú getur líka lesið í guðspjöllunum um það þegar Jesús var krossfestur. Jesús reis upp frá dauðum á páskadagsmorgni og lærisveinarnir hittu hann. Þeir trúðu því að hann væri frelsari heimsins sem Guð hefði sent.
Fleiri bækur en guðspjöllin segja frá Jesú og þær skrifuðu fyrstu fylgismenn hans. Þeir bæru fagnaðarerindi hans út til margra þjóða.
Allar þessar bækur voru skrifaðar á grísku ekki löngu eftir dauða Jesú og upprisu. Þær eru því um 2000 ára gamlar.
Þessar bækur eru Nýja testamentið.
Eftir daga Jesú fjölgaði kristnum mönnum sífellt. Þeir vildu lesa helgirit Gyðinga sem Jesús þekkti svo vel. Þeir vildu líka lesa bækurnar sem sögðu frá Jesú.
Þess vegna var farið að þýða bækurnar úr hebresku og grísku yfir á tungumál sem fólkið í hinum ólíku löndum skildi.
Nú eru liðin mörg hundruð ár frá því að sögur Biblíunnar gerðust. Kristið fólk hefur breitt út fagnaðarerindið um Jesú út um allan heiminn. Biblían hefur verið þýdd á flest tungumál sem töluð eru í heiminum.
Allt hefur verið gert til að fólk geti lesið Biblíuna á sem auðveldastan hátt.
Þess vegna eru til stórar Biblíur og litlar, myndskreyttar Biblíur handa börnum og unglingum.
Já, alls konar Biblíur.
Átt þú Biblíu?
Allt sem þú lest í Biblíunni segir eiginlega frá Guði.
Í sögum Biblíunnar, ljóðum, speki, sálmum og bréfum, má sjá
að Guð elskar mennina,
að Guð elskar réttlætið og kærleikann,
að Guð er kærleikur.
Tekið úr Litla bókin um Biblíuna
Höfundur: Lois Rock
Myndir: Anna C. Leplar
Íslensk þýðing: Kaffistofan Sippóra
Útgefandi: Skálholtsútgáfan