Guð talaði oft til þjóðar sinnar, Ísraelsmanna, fyrir munn karla og kvenna, sem kölluðust spámenn. Þeir töluðu hörkulega til fólksins þegar það fór ekki að vilja Guðs. En þeir höfðu líka það hlutverk að hugga þjóðina þegar erfiðleikar steðjuðu að. Einn af þessum spámönnum hét Samúel.
Maður nokkur að nafni Elkana bjó upp til fjalla. Hann átti konu sem hét Hanna og þráði hún mjög að eignast barn. Á hverju ári fóru þau í helgidóminn í Síló. Þar bað Hanna Guð um að hún mætti eignast son.
Hún grét og sagði: ,,Guð minn, ef þú vilt gefa mér son skal ég gefa þér hann aftur. Hann skal þjóna þér alla ævi.”
Þegar Elí, sem var prestur í helgidóminum, sá hvað Hanna var hrygg á svip, fór hann til hennar og sagði:,,Farðu nú heim og vertu alveg áhyggjulaus. Guð Ísraels gefur þér það sem þú biður hann um.”
Og Hanna ól dreng sem gefið var nafnið Samúel. Hún mundi ætíð hverju hún hafði lofað Guði og þegar drengurinn hafði aldur til fór hún með hann í helgidóminn. Hann fékk að vera hjá Elí. Á hverju ári færði Hanna drengnum nýjan kyrtil til að klæðast.
Nótt eina er Samúel var í fasta svefni var hann skyndilega vakinn. Guð kallaði á hann.
Hann spratt upp, fór til Elí og sagði: ,,Hér er ég. Þú kallaðir á mig.”
En Elí svaraði: ,,Ég kallaði ekki. Farðu nú og leggðu þig aftur.”
Guð kallaði aftur á Samúel.
Hann fór á fætur og flýtti sér til Elí: ,,Hér er ég. Þú varst að kalla á mig:”
Elí svaraði:,,Ég kallaði ekki, drengur minn. Farðu nú og hallaðu þér.”
Í þriðja skipti hrópaði Drottinn á Samúel.
Enn reis hann úr rúmi og gekk til Elí og sagði sem fyrr:
,,Hér er ég. Þú varst að kalla á mig.”
Þá skildi Elí að það var Guð sem kallaði á drenginn.
Hann sagði við Samúel:,,Farðu nú og leggstu fyrir. Ef aftur verður kallað á þig skaltu svara og segja: Tala þú, Drottinn. Ég er þjónn þinn og hlusta.”
Samúel fór og lagðist til svefns.
Þá kallaði rödd Drottins á Samúel eins og áður: ,,Samúel! Samúel!”
Samúel svaraði:,,Tala þú, Drottinn. Ég er þjónn þinn og hlusta.”
Fólkið skildi að Guð hafði valið Samúel sem spámann. Hann var líka kjörinn sem dómari og skar úr um það hvað var rétt og hvað rangt.