Við tuskudýrin og bangsarnir mætum stundum í sunnudagaskólann. Þar lærum við ýmislegt fallegt og skemmtilegt.
Eins og til dæmis að allir eiga að vera vinir og hjálpast að.
Hefur þú hjálpað einhverjum?
Bangsar og tuskudýr eru til í öllum stærðum og gerðum bæði lítil og stór, feit og mjó, hörð og mjúk og í öllum regnbogans litum. Það skiptir ekki máli hvernig við lítum út eða erum á litin. Allir vilja eiga vini. Ert þú góður vinur?
Bangsar og tuskudýr þurfa að læra kurteisi. Alveg eins og mannfólkið. Það er miklu skemmtilegra að umgangast kurteisa bangsa en ókurteisa.
Það er kurteisi að heilsa og kveðja.
Það er kurteisi að þakka fyrir matinn.
Kannt þú fleiri kurteisisreglur?
Stundum förum við tuskudýrin að rífast! Þá verðum við kannski reið og sár. En við höfum lært í sunnudagaskólanum að það er mikilvægt að kunna að sættast og fyrirgefa hvert öðru. Kannt þú að segja fyrirgefðu?
Stundum verðum við tuskudýrin hrædd. Við erum alveg eins og krakkarnir hvað það varðar. En við höfum lært eitt í sunnudagaskólanum! Það er að biðja bænirnar okkar. Þá finnum við að Guð gefur okkur styrk. Kannt þú einhverja bæn?
Við tuskudýrin í sunnudagaskólanum kunnum margar bænir. En núna erum við að læra að segja bænir sem við búum til sjálf. Við erum að læra að biðja fyrir örðum. Svo erum við líka að læra að þakka Guði fyrir allt mögulegt sem við höfum. En okkur finnst nú samt eiginlega skemmtilegast að biðja Guð að gera eitthvað fyrir okkur. Það má alveg líka. Guð heyrir allar bænir.
Við höfum lært fullt af lögum í sunnudagaskólanum. Kannt þú eitthvað sunnudagaskólalag?
Kanntu Jesús er besti vinur barnanna?