II.Mósebók 5.-7.kafli
Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi. Guð hafði falið Móse það starf að leiða Ísraelsmenn út úr landinu og fara með þá heim.
Móse og Aron, bróðir hans, fóru á fund konungsins í Egyptalandi og sögðu:,,Guð Ísraels vill að þú látir þjóðina lausa svo hún geti farið út í eyðimörkina og haldið hátíð.”
Konungurinn svaraði:,,Ég þekki ekki Guð ykkar og ég mun ekki leyfa Ísraelsmönnum að fara eitt né neitt.”
Móse og Aron gengu á braut. Konungurinn reiddist ákaflega og ákvað að refsa Ísraelsmönnum. Þeir voru þvingaðir til að vinna miklu meira en áður.
Móse sá að þjáningar Ísraelsmanna jukust.
Hann bað til Guðs: ,,Hvers vegna sendir þú mig? Þjáningar Ísraelsmanna hafa bara aukist eftir að ég fór á fund konungsins. Þú lofaðir að bjarga þeim!”
En Guð sagði við Móse:,,Nú færðu að sjá hvað ég get gert. Farðu á konungsfund. Ég mun vera með þér.”
Móse og Aron sneru aftur til konungsins.
Konungur mælti:,,Sannið það fyrir mér að Guð sendi ykkur. Vinnið kraftaverk!
Þá kastaði Aron staf sínum fram fyrir fætur konungsins. Hann breyttist í stóran höggorm. Konungur skipaði töframönnum sínum að gera slíkt hið sama. Töframennirnir köstuðu stöfum sínum og þeir breyttust líka í höggorm. En þá gleypti höggormur Arons alla hina ormana. Og konungurinn hló bara að Móse og Aroni. Honum datt ekki í hug að hlusta á þá.
Næsta dag fengu þeir Móse og Aron fyrirmæli frá Guði um að fara niður að Nílarfljóti. Þar hittu þeir fyrir konunginn sem var að lauga sig.
Aron lyfti staf sínum og sló honum á Nílarfljót og vatnið varð eitrað á augabragði. Fiskarnir drápust og enginn gat drukkið vatnið. En egypsku töframennirnir voru engir eftirbátar þeirra í þessu efni og létu bara krók koma á móti bragði. Og konungurinn gekk heim og kærði sig kollóttan. Sjö dögum síðar fóru Móse og Aron aftur á fund konungs.
Móse sagði:,,Ef þú gefur Ísraelsmönnum ekki frelsi fyllist land þitt af skordýrum.” Konungurinn tók ekki mark á þessum orðum. Þá sagði Móse við Aron:
,,Haltu staf þínum yfir fljótum, ám og tjörnum og láttu skorkvikindi spretta upp og herja á landið.” Aron rétti út hönd sína og svartur mökkur skorkvikinda steig alls staðar upp í Egyptalandi og huldi landið.
Konungurinn kallaði Móse og Aron á sinn fund og sagði:,,Biðjið Guð um að eyða þessum skorkvikindum. Þá skal ég gefa Ísraelsmönnum leyfi til að fara.”
Móse bað Guð að fara að óskum konungsins. Skorkvikindin drápust. En þegar konungurinn sá að þau voru á bak og burt snerist honum hugur og hann vildi ekki gefa Ísraelsmönnum fararleyfi.
Móses og Aron gengu aftur á fund konungs og vöruðu hann við að ógæfa mikil myndi enn og aftur dynja yfir þjóð hans ef hann gæfi ekki Ísraelsmönnum fararleyfi. En konungur lét orð þeirra sem vind um eyru þjóta. Í hvert skipti sem ný ógæfa dundi yfir Egyptaland gaf hann Ísraelsmönnum leyfi til að fara en þegar hún var liðin hjá gleymdi hann jafnskjótt orðum sínum og lét stöðva för þeirra Móse og Aronar. Ógæfan lét ekki á sér standa. Það kom skelfilegt haglél og nánast öll uppskera brást. Síðan kom aragrúi af engisprettum og átu þær upp það litla sem eftir var af uppskerunni. Þá varð sólmyrkvi í landinu öllu og þreifandi myrkur lagðist yfir menn og skepnur svo ekkert sást.
Þegar myrkur hafði legið yfir landinu í þrjá daga lét konungur kalla á Móse og sagði:,,Farið úr landinu og haldið þessa hátíð ykkar. Þið megið öll fara en fáið ekki leyfi til að taka með ykkur búfénaðinn.”
En Móse sagði:,,Við verðum að taka allt með okkur þegar við förum.”
Konungur brást hinn versti við og mætli:,,Hypjaðu þig á brott og láttu mig ekki þurfa að sjá andlit þitt aftur!”
Móse svaraði og sagði:,,Þú verður að gefa Ísraelsmönnum fararleyfi. Ef þú gerir það ekki þá dynur skelfileg ógæfa yfir þig og þjóð þína. Elsti sonur þinn mun deyja. Já, elsti sonurinn í hverri einustu fjölskyldu í landinu mun deyja.”
En konungurinn var harðákveðinn og sagði:,,Farðu og láttu mig aldrei sjá þig framar. Ég leyfi Ísraelsmönnum aldrei að fara úr landi mínu.”
Móse var mjög reiður er hann yfirgaf konung.
Móse fór til fólksins og sagði:,,Drottinn Guð mun vernda ykkur ef þið hlýðið orðum mínum. Farið heim til ykkar og undirbúið máltíð. Slátrið lambi og steikið það yfir eldi. Blóð lambsins skuluð þið taka og lita dyrastafi húsa ykkar með því.
Blóðmerkið verður tákn sem verndar ykkur. Enginn má fara út fyrr en í fyrramálið því skelfileg ógæfa dynur yfir Egyptaland í nótt. Ef þið farið að orðum mínum mun Guð vernda ykkur.”
Nóttin skelfilega kom og svo fór sem Móse hafði sagt. Um allt Egyptaland dóu elstu synirnir í fjölskyldunum.
Konungurinn fór á fætur um miðja nótt og lét kalla á þá Móse og Aron. Hann sagði:,,Hafið ykkur á brott úr landi mínu og frá þjóð minni. Farið með Ísraelsmenn héðan og takið með ykkur allt sem þið eigið, fénað allan, kýr og naut. Farið með allt.”
Og þeir gengu tafarlaust frá öllu sem þeir áttu og yfirgáfu Egyptaland.