Í borginni Harran bjuggu þau Abram og Saraí. Þau voru barnlaus.
Guð sagði við Abram: ,,Þú skalt yfirgefa þetta land og fara frá fjölskyldu þinni. Ég vísa þér á annað land. Þú munt eignast börn og barnabörn. Ætt þín verður stór. Ég mun blessa þig og gera þig styrkan.”
Abram og Saraí lögðu af stað. Lot fór með þeim, en hann var frændi Abrams. Þau fóru með allt sitt hafurtask og þjónar þeirra fylgdu þeim. Þau komu til Kanaanslands.
Guð birtist Abram og sagði:,,Þetta er landið sem ég gef þér og börnum þínum.” Á þessum stað reisti Abram Guði altari.
Abram var auðugur maður. Hann átti gull og silfur og margar kindur. Lot átti líka margar kindur. Þá gerðist það dag nokkurn að fjárhirðar þeirra komust í mikinn vanda með að gæta allra þessara kinda í sama haga og byrjuðu því að rífast.
Abram sagði við Lot:,,Við skulum ekki vera ósáttir. Við erum frændur. Það er betra að við yfirgefum hvorn annan. Ég fer ekki þangað sem þú ferð og þú verður ekki þar sem ég er.”
Lot leit í kringum sig. Honum fannst Jórdansléttan vera falleg og fluttist þangað. Abram hélt kyrru fyrir í Kanaanlandi.
Guð sagði við Abram:,,Börn þín og barnabörn verða jafnmörg og öll sandkorn jarðar samanlögð.”
Þá mælti Abram:,,Ég er barnlaus. Þú hefur ekki gefið mér barn.”
Guð bað Abram að ganga út og líta til himins. ,,Teldu stjörnurnar ef þú getur. Börn þín og barnabörn verða jafnmörg og þær.”
Þá trúði Abram Guði.
Og Guð sagði við Abram:,,Þú sklt ekki lengur heita Abram heldur Abraham, en það þýðir faðir margra. Saraí skal heita Sara, en það þýðir ættmóðir.”
Abraham og Sara tóku að eldast. En gátu þau eignast barn?
Jú, Guð hafði gefið þeim loforð. Og þess var ekki langt að bíða að Abraham og Sara eignuðust barn, lítið og fallegt barn.
Abraham og Sara bjuggu í tjaldi. Eitt sinn sat Abraham við tjaldskörina í síðdegishitanum. Hann leit upp og sá þrjá menn. Hann hraðaði sér til þeirra, hneigði sig og mælti: ,,Leyfið mér að ná í vatn handa ykkur svo þið getið þvegið ykkur. Svo getið þið hvílst undir trénu. Og brauð skuluð þið líka fá fyrst þið farið hér um.”
Þeir þökkuðu Abraham kærlega fyrir og hann flýtti sér inn í tjaldið. Hann sagði við Söru:,,Hafðu nú snör handtök, góða mín og náðu í mjöl og bakaðu brauð í snatri.”
Abraham þjónaði þeim og bar fram ríflegan mat undir trénu.
mennirnir mötuðust og spurðu síðan um Söru. Abraham sagði að hún væri inni í tjaldinu.
Þá sagði einn mannanna:,,Ég kem hingað að ári liðnu á sama tíma. þá mun Sara hafa alið son.”
Sara stóð við tjaldskörina og heyrði hvað maðurinn sagði. Hún hló með sjálfri sér.
Nokkru síðar spurði Abraham Söru hvers vegna hún hefði hlegið. Trúði hún því ekki að hún myndi fæða barn?
Abraham og Sara höfðu bæði heyrt þetta: ,,Guð getur allt. Sara mun fæða barn á næsta ári.”
Öll loforð Guðs stóðu eins og stafur á bók. Sara fæddi lítið barn, dreng sem fékk nafnið Ísak.