Daníelsbók 6:1-28
Nebúkadnesar konungur var dáinn og nýr konungur að nafni Daríus sestur í hásætið. Daníel var einn mesti ráðamaður landsins og Daríus vildi meira að segja gera hann enn valdameiri.
Hinir höfðingjarnir fylltust mikilli öfund vegna þessa. Þeir vissu að Daníel vildi aðeins tilbiðja Drottin og engan annan.
Þeir gengu á fund konungs og sögðu:,,Við teljum að þú eigir að skipa öllum í ríki þínu að tilbiðja í heilan mánuð aðeins þig, ágæti konungur, en ekki neinn annan guð. Sá sem ekki hlýðir þessu skal varpað í ljónagryfjuna. Lög okkar segja svo að ef konungur ákveður eitthvað þá verði því ekki breytt.”
Konungi fannst þetta vera snjallt ráð og sendi boð um allt ríkið.
Öllum var bannað að tilbiðja aðra guði en konunginn.
Þegar Daníel frétti þetta gekk hann inn í hús sitt. Hann féll á kné og baðst fyrir og lofaði Guð, en það hafði hann tamið sér að gera þrisvar á dag við opinn glugga sem sneri í átt til Jerúsalem.
Þá fóru óvinir Daníels til konungs og mæltu:,,Daníel hlýðir ekki skipunum þínum. Hann biður eins og hann er vanur til síns Guðs þrisvar á dag.”
Konungur braut heilann um það allan daginn hvað gera skyldi til að bjarga Daníel. En öfundarmenn Daníels minntu konunginn á að ekki væri hægt að breyta því sem hann hefði ákveðið.
Þá lét konungur sækja Daníel og varpa honum í ljónagryfjuna. En þá sömu nótt kom konungi ekki dúr á auga. Strax um morguninn hljóp hann út að ljónagryfjunni.
Hann hrópaði sorgfullri röddu til Daníels: ,,Daníel! Bjargaði ekki Guð þinn þér?”
Daníel svaraði:,,Guð minn sendi engil og lokaði gini ljónanna, svo þau hafa ekki unnið mér neitt mein.”
Konungur gladdist mjög er hann heyrði þetta og lét draga Daníel upp úr ljónagryfjunni.