Förin yfir Rauðahafið

2.Mósebók 14.1-15.21

Ísraelsmenn voru margar þúsundir þegar þeir yfirgáfu Egyptaland. Þeir tóku með sér fé sitt, kýr og naut.

Allt fólkið, karlar, konur og börn, og allar skepnur, gekk fylktu liði yfir eyðimörkina og stefndu til Rauðahafsins. Guð vísaði þeim leið. Á daginn fór Guð fyrir þeim í skýstrók en á nóttunni í eldsúlu.

Eldurinn lýsti upp veginn og því gátu þau ferðast jafnt um nætur sem daga. Þegar þau komu að Rauðahafinu námu þau staðar til að hvíla sig.

En í Egyptalandi sat konungurinn og nagaði sig í handarbökin:

Hann sagði við þjóna sína: ,,Það var heimskulegt að sleppa Ísraelsmönnum. Hver á nú að vinna fyrir okkur?” Konungur ákvað að Ísraelsmönnum skyldi veitt eftirför og þeir þvingaðir til að snúa aftur til Egyptalands. Hann bauð að hestar skyldu strax spenntir fyrir vagnana. Mikill fjöldi hermanna hélt af stað með honum í þessa eftirför. Þeir ætluðu svo sannarlega að sækja þræla sína hið snarasta!

Ísraelsmenn hvíldu lúin bein við Rauðahafið og drógu andann léttar. Skyndilega heyrðu þeir hófadyn og þyt í stríðsvögnum. Þeir litu upp og sáu í fjarska konung Egyptalands og hermenn hans geysast í átt til sín.

Þeir urðu skelfingu lostnir og hrópuðu til Móse:,,Það hefði verið skárra að deyja sem þrælar í Egyptalandi heldur en falla fyrir vopnum hér í eyðimörkinni!”

Móse svaraði og sagði:,,Óttist ekki. Guð mun berjast fyrir ykkur.”

Og Guð bauð Móse að lyfta upp staf sínum út yfir Rauðahafið. Þá blés sterkur austanvindur hafinu til hliðar og djúp gönguslóð myndaðist. Ísraelsmenn gátu gengið þurrum fótum yfir hafið en þeim til beggja handa stóð sjórinn sem hamraveggur og lét heldur ófrýnilega.

Konungurinn og menn hans sáu að Ísraelsmenn gengu yfir hafið og tóku þeir á rás eftir þeim. En þegar Ísraelsmenn höfðu náð til strandar hinum megin sópaðist sjórinn jafnskjótt á sinn stað. Konungur og hermenn hans, sem hálfnaðir voru yfir hafið, drukknuðu allir sem einn.

Þannig björguðust Ísraelsmenn og allir þökkuðu þeir Guði lífgjöfina. Mirjam, systir Móse, tók sér litla bumbu í hönd og sló hana létt. Hún dansaði af gleði og söng Guði þökk og hið sama gerðu allar hinar konurnar.

To Top