Hvað er bæn?

Hvað er bæn?

Í bæninni talar þú við Guð.

Þú getur farið með bæn upphátt svo allir heyri.

Þú getur farið með bæn í huganum svo enginn heyri nema þú og Guð.

Þú þarft ekki að nota sérstök orð þegar þú biður.

Bæn er eins og samtal við góðan við þinn eða vinkonu.

Enginn getur séð Guð. En kristið fólk trúir því að hann sé alls staðar nálægur.

Þú getur beðið til Guðs hvar sem er. Á kyrrlátum stað og líka þar sem er ys og þys.

Það skiptir ekki máli hvort þú stendur eða situr. Hvort þú gengur eða ert kyrr. Guð heyrir bænir þínar.

Ef þú vilt eiga sérstaka bænastund skaltu finna góðan og friðsælan stað.

Þar getur þú hugsað vel um það sem þú ætlar að segja.

Í bænum þínum getur þú talað við Guð um allt.

Þú getur talað um það sem gleður þig.

Talað um það sem hryggir þig.

Þú getur talað við Guð um allt sem þú þarft og allt sem þú hugsar.

Þú getur þakkað Guði fyrir allt sem lífið gefur þér á hverjum degi.

Þú getur þakkað Guði fyrir allt sem þú kannt og getur. Það er þó nokkuð margt ef þú hugsar um það.

Þú getur beðið Guð um að hjálpa þér að gera ekkert sem er ljótt og rangt.

Þú getur beðið fyrir öðru fólki.

Beðið Guð um að hjálpa því og líka að gefa þér hugrekki til að hjálpa. Hjálpa öllum alls staðar.

Ef þú ætlar að biðja en finnur engin orð í huga þínum skaltu ekki hafa áhyggjur.

Guð veit hvað þú ætlar að segja. Hann skilur hvernig þér líður og veit hvað þér er fyrir bestu.

Í öllum bænum þínum treystir þú því að Guð sé með þér.

Mundu að bænin felur það líka í sér að við hlustum eftir öllu því góða sem kemur frá Guði og við sjáum það líka. Finnum að hann heldur í hönd okkar og leiðir. Honum þykir vænt um okkur öll.

Jesús sagði að Guð bænheyrði fólk og gæfi því allt sem væri gott. Hann sagði:

,,Biðjið og þið munuð fá.
Leitið og þið munuð finna.
Bankið upp á og dyrnar munu verða opnaðar.”

Jesús kenndi lærisveinum sínum Faðir vorið:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Og fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið,
mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

 

lb_baenTekið úr Litla bókin um bænina
Höfundur: Lois Rock
Myndir: Anna C. Leplar
Íslensk þýðing: Kaffistofan Sippóra
Útgefandi: Skálholtsútgáfan

To Top