Hver er Guð?

Þú heyrir fólk oft tala um Guð en þú sérð hann aldrei!

Hver er þá Guð? Þetta er dálítið dularfullt!

Kristnir menn trúa því að áður en heimurinn varð til hafi aðeins Guð verið til. Bara Guð.

Enginn bjó Guð til því hann hefur alltaf verið til. Og hann mun alltaf verða til.

Guð er sá sem er!

Fyrir langa langa löngu sagði Guð – sem er eilífur eins og þú veist núna:

,,Verði ljós!”

Og það varð ljós.

Síðan skapaði Guð himininn, sól og stjörnur. Hann skapaði jörðina og allt sem á henni er.

Guð lét jörðina snúast í kringum skínandi bjarta sólina. Hann setti sumarið á sinn stað og veturinn, vorið og haustið. Allt svo ljómandi fallegt og skemmtilegt.

Guð skapaði mennina, karla og konur.

Mennirnir áttu að elska hann og hverja aðra.

Þeir eiga líka að hugsa vel um heiminn.

Fara vel með náttúruna.

Guð valdi fólk til að bera út boðskap sinn og segja örðum frá sér og hvernig hann vill að við högum okkur. Hann vill að fólk sé gott og heiðarlegt í öllu sem það gerir og segir. Það á að hugsa vel um þau sem þurfa á hjálp að halda. Sætta þau sem eru að rífast því allir eiga að vera vinir.

En fólk gerir stundum mistök. Gerir það sem er rangt. Þess vegna sendi Guð Jesú til að segja fólki frá fyrirgefningu sinni.

,,Guð er eins og hirðir,” sagði Jesús, ,,sem leitar að týndu kindinni og hættir ekki að leita fyrr en hún er fundin.”

Fólk sem á Guð að vini, biður til hans.

Í sumum bænum þakkar fólk fyrir ýmislegt.

Í öðrum bænum biður fólk um fyrirgefningu.

Í enn öðrum bænum biður fólk um hjálp.

Fólk getur beðið Guð um að leiðbeina sér svo lífið verði gott og fallegt.

Guð styrkir fólk og hjálpar í lífinu.

Fólk getur í bænum sínum sagt Guði frá því sem gleður það og líka frá því sem gerir það dapurt. Það trúir því að Guð sé hjá því á góðum stundum og erfiðum.

Fólk sem elskar Guð veit að það getur treyst honum og ekki síst þegar eitthvað gerist sem er hættulegt eða erfitt. Það trúir því að Guð vaki yfir öllum allar stundir.

Allt sem lifir í heiminum varir ekki um aldur og ævi á jörðinni.

Allt vex og dafnar en dag nokkurn hverfur það.

Allt deyr um síðir.

Fólk sem elskar Guð segir að þegar heimur okkar verður orðinn gamall og úr sér genginn þá muni heimurinn líða undir lok. En Guð mun alltaf vera til.

Við tölum um himininn sem bústað Guðs. Öll þau sem Guð elskar munu verða örugg um alla eilífð í faðmi hans á himnum.

 

lbgudTekið úr Litla bókin um Guð
Höfundur: Lois Rock
Myndir: Anna C. Leplar
Íslensk þýðing: Kaffistofan Sippóra
Útgefandi: Skálholtsútgáfan

To Top