Innreiðin í Jerúsalem

Lúkasarguðspjall18:31-34 og 19:28-40

Jesús kallaði lærisveinana sína tólf saman.

Hann sagði við þá:,,Við förum til Jerúsalem. Mú mun allt rætast sem spámennirnir sögðu. Ég mun líða þjáningar og verða deyddur. En á þriðja degi mun ég verða reistur upp til lífs.”

Lærisveinarnir skildu ekkert í þessu sem Jesús sagði. Orð hans voru þeim sem ráðgáta.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem sendi Jesús tvo lærisveina á undan og sagði:,,Farið í þorpið sem blasir hér við fram undan. Þið munuð finna asna sem þar er bundinn. Takið asnann og komið með hann hingað. Ef einhver spyr hvað þið ætlið að gera við hann skuluð þið svara: Herrann þarf á honum að halda.”

Þeir fóru af stað og allt var eins og Jesús hafði sagt.

Þeir komu auga á asnann sem stóð bundinn við hlið úti á strætinu.

Nokkrir menn sem þar stóðu spurðu:,,Hvað eruð þið að gera? Ætlið þið að taka asnann?”

Lærisveinarnir svöruðu eins og Jesús hafði sagt þeim og þeir fengu að fara í friði.

Þeir fóru með asnann til Jesú. Því næst lögðu þeir yfirhafnir sínar á hann og Jesús steig á bak. Hann lagði af stað áleiðis til borgarinnar. Margir breiddu yfirhafnir sínar á veginn en aðrir tóku pálmagreinar og lögðu fyrir fætur asnans. Allir sem gengu á undan og þeir sem á eftir fylgdu sungu fagnandi hárri raustu.

Hósíanna! Blessaður sé sá  sem kemur í nafni Drottins! Hósíanna í hæstum hæðum!

Nú kom Jesús ríðandi á asna inn í Jerúsalem.

Menn komust í uppnám og spurðu: ,,Hver er hann?”

Fólkið sem hafði fylgt honum svaraði:,,Þetta er Jesús frá Nasaret.”

Jesús fór í musterið en um kvöldið hélt hann ásamt lærisveinum sínum aftur til þorpsins Betaníu.

To Top