Lúkas 2:41-52
Jósef og María voru vön að fara til Jerúsalem og halda þar páska. Þegar Jesús var tólf ára gamall fékk hann að fara með þeim. Þau fóru með mörgu öðru fólki um langan veg til borgarinnar helgu. Þegar fólkið sá loksins borgina og skínandi fallegt musterið tók það að syngja af gleði. Þau dvöldu nokkra daga í Jerúsalem.
Þegar páskahátíðinni var lokið og þau bjuggust til heimferðar varð Jesús eftir í Jerúsalem án þess að Jósef og María vissu það. Þau héldu að hann væri einhvers staðar með samferðafólkinu.
Þegar þau höfðu verið á ferð í sólarhring án þess að verða vör við Jesú tóku þau að spyrja eftir honum meðal ættingja og vina. Þau urðu áhyggjufull þegar þau fundu hann ekki. Hvert hafði hann farið?
Þau sneru aftur til Jerúsalem og leituðu hans alls staðar. Eftir þrjá daga fundu þau hann í musterinu. Þar sat hann hjá lærðustu mönnum þjóðarinnar, hlýddi á tal þeirra og spurði margs. Allir sem hlustuðu á hann urðu forviða yfir skilningi hans og snjöllum svörum.
Jósef og María urðu bæði hrædd og hissa þegar þau sáu hann þar.
María sagði við hann:,,Barn, hvers vegna gerðir þú okkur þetta? Faðir þinn og ég höfum leitað þín og verið svo hrædd um þig.
Jesús svaraði:,,Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að ég hlyti að vera í húsi föður míns?”
En þau skildu ekki orð hans.
Síðan fór hann með þeim heim til Nasaret og var þeim hlýðinn. En María geymdi þetta allt í hugskoti sínu.
Jesús lærði margt og allur skilningur hans óx. Hann varð fulltíða maður og skildi að Guð ætlaðist til einhvers mjög sérstaks af honum.