Maður nokkur að nafni Jaírus var fullur örvæntingar því að dóttir hans var fársjúk. Já, hann var hræddur um að hún myndi deyja. Hún var aðeins tólf ára gömul. Hún varð að fá heilsu aftur, hún varð að lifa! En hver átti að hjálpa henni? Jaírus ákvað að biðja Jesú um hjálp og fór til hans.
,,Dóttir mín litla er að deyja,” sagði hann. ,,Komdu og leggðu hönd þína yfir hana svo hún verði heilbrigð.”
Jesús fór með honum.
Á heimleiðinni mættu þeir manni sem sagði við þá: ,,Dóttir þín er dáin. Þú skalt ekki trufla Jesú meira.”
En Jesús sagði: ,,Vertu ekki hræddur, trúðu aðeins!”
Saman héldu þeir ferðinni heim til Jaírusar. Þar var fólkið ráðvillt, grét og kveinaði af sorg.
Jesús gekk inn og spurði: ,,Hvers vegna grátið þið? Stúlkan er ekki dáin. Hún er bara sofandi.”
Þeir trúðu ekki orðum hans. Þeir vissu ósköp vel að litla stúlkan var dáin.
Jesús tók með sér móður stúlkunnar og föður og saman fóru þau inn til hennar. Lærisveinarnir Pétur, Jakob og Jóhannes fengu einnig að fara inn með þeim.
Jesús tók í hönd stúlkunnar og sagði hátt: ,,Talíþa kúmi!” En það þýðir: Litla stúlka, ég segi þér, rís upp!
Og stúlkan litla stóð strax upp. Allir urðu furðu lostnir. Stúlkan hafði dáið. Nú var hún lifnuð við! Jesús bað þau að gefa henni eitthvað að borða.