Maður nokkur hét Jakob. Hann átti 12 syni. Tíu syni átti hann með konu sem hét Lea en hina tvo átti hann með konu sem hét Rakel. Jakob hélt mjög mikið upp á synina sem hann átti með Rakel, því mamma þeirra var dáin og hann vildi gæta þeirra sérstaklega vel.
Annar sonurinn hét Jósef en hinn hét Benjamín.
Jakob lét gera kyrtil einn, veglegan og síðan. Þennan kyrtil gaf hann Jósef. Þegar bræður Jósefs sáu það urðu þeir mjög gramir. Þeim fannst ekkert til Jósefs koma.
En Jósef dreymdi merkilega drauma. Hann sagði bræðrum sínum frá þeim en þeir urðu bara gramari en áður út í hann.
Hann sagði svo frá: ,,Mig dreymdi að við vorum allir úti á akri að binda korn og mitt kornbindi stóð upprétt. Kornbindi ykkar allra stóðu umhverfis mitt og hneigðu sig djúpt.”
Þá sögðu bræður hans: ,,Heldurðu að þú verðir konungur yfir okkur?”
Og þeim varð enn verr við Jósef en áður.
Jósef dreymdi meira.
Hann tók til máls: ,,Hlustið nú á mig! Mig dreymdi draum þar sem sól og tungl og ellefu stjörnur hneigðu sig fyrir mér.”
Eftir að hafa sagt föður sínum og bræðrum þennan draum ávítaði faðir hans hann: ,,Hvers konar draumar eru þetta eiginlega? Eigum við, fjölskylda þín, að koma til þín og hneigja okkur fyrir þér?”
Bræður Jósefs urðu mjög öfundsjúkir en Jakob faðir hans hugsaði með sér að ekki sakaði svo sem að muna þessa drauma.
Bræður Jósefs gættu kinda föður síns í haga einum sem var mjög fjarri heimili þeirra.
Jakob sagði við Jósef:,,Farðu og gættu að því hvernig bræður þínir hafa það og hvað fénu líður. Ég vil gjarnan fá einhverjar fréttir.”
Bræður hans sáu hann álengdar. Þeir fóru samstundis að tala um það sín í milli hvað það væri gott ef Jósef hyrfi.
Þeir sögðu hver við annan:,,Sjáið hver kemur þarna! Sjálfur draumamaðurinn. Við skulum ráðast á hann og kasta honum ofan í brunn og þá erum við lausir við draumatalið í honum.”
Rúben sagði:,,Þið megið ekki deyða hann. Fleygið honum bara í brunninn.”
Rúben ætlaði að bjarga Jósef seinna og sjá til þess að hann kæmist heim.
Nú kom Jósef til bræðra sinna. Þeir rifu hann úr kyrtlinum góða og vörpuðu honum í brunn. Brunnurinn var tómur. Alveg galtómur.
Bræður hans settust síðan niður til að snæða. Í fjarska sáu þeir menn nokkra ganga í langri röð. Þetta voru kaupmenn sem höfðu hlaðið varningi upp á úlfalda sína og hugðust þeir selja hann í Egyptalandi.
Þá kom Júda ráð í hug: ,,Við seljum Jósef! Veið gerum honum ekki mein, enda er hann bróðir okkar, en við getum selt hann.”
Þegar löng kaupmannalestin færðist nær þeim fóru þeir og drógu Jósef upp úr brunninum og seldu hann. Þeir fengu greitt í silfri. Kaupmennirnir fóru með Jósef sem þræl til Egyptalands.
Rúben var ekki nærstaddur þegar þeir seldu Jósef. Honum brá heldur en ekki í brún þegar hann sá að enginn var í brunninum. Hann varð mjög hryggur og vissi ekki hvað hann ætti að taka til bragðs.
Bræðurnir tóku nú fallega kyrtilinn hans Jósefs. Þeir rifu hann í sundur og ötuðu hann blóði. Nú leit svo út að villidýr hefði rifið Jósef í sig.
Þeir héldu heim á leið með kyrtilinn rifinn og alblóðugan. Jakob þekkti kyrtilinn strax og sagði að Jósef hefði lent í klónum á villidýri. Hann grét sáran og kveinaði.
Bræður og systur þeirra reyndu að hugga hann. En Jakobi fannst sem hann myndi aldrei líta glaðan dag eftir þetta.
Jósef neyddist til að fylgja kaupmönnunum til ókunnugs lands, sem hét Egyptaland. Þar var hann seldur manni sem Pótífar hét. Pótífar þessi var hirðmaður hjá faraó, konungi Egyptalands.
Nú átti Jósef að vinna fyrir Pótífar. Jósef vakti strax athygli Pótífars. Allt sem Jósef tók sér fyrir hendur var vel unnið og heppnaðist. Pótífar ákvað að Jósef skyldi vinna allt sem var mjög mikilvægt. Já, Jósef átti að ráða yfir öllu sem Pótífar átti. Ekki leið á löngu uns Pótífar þurfti engar áhyggjur að hafa. Hann sá að allt var í góðum höndum þegar Jósef var annars vegar. Og Jósef reyndi vissulega að gera allt sitt besta og meira til. Guð blessaði heimili Pótífars og fjölskyldu vegna Jósefs. En þrátt fyrir þetta lenti Jósef í fangelsi!
„Komið öllsömul eins og skot,“ hrópaði kona Pótífars til allra í húsinu. „Jósef vildi leggjast með mér!
Hún sagði ekki satt. En Pótífar trúði henni. Hann varð fjúkandi reiður og lét varpa Jósef í fangelsi.
Jósef hafði verið hrint ofan í brunn, verið seldur eins og hver annar þræll af bræðrum sínum og neyddur til að fara til framandi lands. Og nú sat hann í fangelsi!
En Guð var hjá Jósef í fangelsinu og hjálpaði honum. En þess var ekki langt að bíða að fangelsisstjórinn gæfi honum gaum. Hann sá að Jósef var traustsins verður og lét hann sinna sérstökum störfum. Menn þurftu ekki að hafa áhyggjur af því sem Jósef tók að sér því að hann leysti allt vel af hendi.
Jósef ræður drauma
Í þjónustu konungsins var bakari sem bakaði allt brauð handa honum. Yfirþjónn konungsins sá um öll vínföng hirðarinnar. Báðir þessir menn komust í ónáð hjá konungi og höfnuðu fyrir vikið í fangelsi.
Nótt eina dreymdi bakarann og yfirþjóninn undarlega drauma. Morguninn eftir veltu þeir því fram og aftur fyrir sér hvað draumar þeirra merktu.
Jósef kom til þeirra og spurði undrandi:
„Hvers vegna eruð þið svona daprir á svip?“
Þeir svörðuð: „Okkur dreymdi undarlega, en það getur enginn ráðið draumana.“
Yfirþjónninn og bakarinn tóku nú að segja Jósef drauma sína, skýrt og skilmerkilega.
Jósef vissi hvað draumarnir þýddu.
Eftir þrjá daga færi afar illa fyrir bakaranum. En yfirþjónninn slyppi úr fangelsinu og fengi aftur sína fyrri vinnu hjá konungi.
Þremur dögum síðar kom í ljós að Jósef hafði ráðið draumana rétt. Bakarann henti mikil ógæfa, en yfirþjónninn fékk frelsi.
Jósef lýsti því fyrir yfirþjóninum hve ósanngjarnt það væri að hann, Jósef sæti í fangelsi. Hann bað yfirþjóninn um að koma þeim orðum sínum til konungsins því þá fengi hann örugglega frelsi.
Yfirþjónninn tók nú við sínu fyrra starfi hjá hirðinni. En hann gleymdi Jósef fljótt, sem ráðið hafði draum hans rétt og veitt honum hjálp. Jósef varð því að dúsa áfram í fangelsinu.
Jósef hjá faraó
Þegar Jósef hafði verið í fangelsi í tvö ár bar svo við að konunginn, faraó, dreymdi draum. Sá draumur varð honum mikið áhyggjuefni.
Honum fannst sem hann stæði á bökkum Nílarfljóts. Upp úr fljótinu komu sjö kýr öslandi. Þær voru feitar og þrifalegar og voru á beit á árbakkanum. En síðan komu aðrar sjö kýr upp úr fljótinu. Þær voru magrar og ljótar og átu upp hinar sjö kýrnar.
Hvað gat þessi draumur þýtt? Konungur gekk milli allra vitringa sinna og leitaði ráðningar, en enginn þeirra botnaði neitt í þessum draumi um kýrnar.
Þá mundi yfirþjónninn eftir dálitlu!
Draumar! Já, draumráðningar! Auðvitað hann Jósef!
Yfirþjónninn fór á fund konungs og mælti: „Þegar ég var í fangelsi með bakaranum dreymdi okkur drauma sem við vissum að merktu eitthvað alveg sérstakt. Í fangelsinu var líka útlendingur. Hann hét Jósef. Hann gat ráðið drauma okkar rétt.“
Þegar konungur heyrði þetta lét hann gera boð fyrir Jósef. Hann var leystur snarlega úr haldi. Jósef tók sig til og fór síðan á fund konungs.
Konungur tók til máls: „Mig hefur dreymt draum sem enginn hefur ráðið fram að þessu. En ég hef frétt að þú getir ráðið drauma.“
Jósef sagði að það væri í raun og veru Guð sem sýndi hvað draumarnir þýddu. Konungur sagði nú Jósef drauminn um feitu og þriflegu kýrnar sjö og hinar sjö mögru og ljótu. „Ég hef hvergi séð í öllu Egyptalandi eins forljótar kýr og þessar,“ sagði konungurinn.
Jósef hlustaði. Síðan réð hann drauminn svo: „Kýrnar sjö, þær feitu og þriflegu, þýða sjö ár. Það koma sjö góð ár í landinu. Sprettan verður góð og uppskeran mikil og væn. Allir munu hafa nóg að bíta og brenna. Hinar kýrnar, þessar ljótu og mögru, þýða sjö ár með hallæri og eymd. Uppskeran verður léleg í sjö ár og fólk mun svelta heilu hungri. Árin þessi verða svo erfið að fólkið gleymir hvernig góðu árin voru. Með þessum draumum sýnir Guð hvernig allt mun ganga fyrir sig í Egyptalandi.“
Jósef hugsaði sig aðeins um og sagði síðan: „ Á góðu árunum sjö ættum við að safna korni í hlöður og geyma til erfiðu áranna. Alls staðar í landinu ættu menn að taka frá hluta af uppskerunni á hverju ári og geyma í forðabúrum í borgunum. Þegar erfiðu árin ganga í garð þarf enginn að svelta. Þá grípum við til kornsins sem við geymdum. En sá sem stjórnar þessu verki verður að vera vitur og ráðsnjall.“
Þetta fannst konungi viturlega mælt og sagði við Jósef: Fyrst Guð hefur sýnt þér allt þetta þá er enginn jafn snjall og þú. Þú, Jósef, skalt stjórna þessu verki! Þér og þínum skipunum skulu allir hlýða. Já, allir í Egyptalandi.“
Konungur tók hring af fingri sér og gaf Jósef. Þá fékk Jósef ný föt og glæsileg og gullkeðju um hálsinn.
Jósef fór um allt Egyptaland í vagni. Sprettan í landinu var einstaklega góð og uppskeran mikil. Nægur matur var til handa öllum. Jósef lét sjá til þess að allir tækju hluta af uppskerunni frá og gerðu eins með annan mat. Hann vissi með sjálfum sér að allt kæmi þetta að góðum notum síðar.
Í Egyptalandi var kona nokkur sem hét Asenat. Jósef gekk að eiga hana.
„Manasse,“ sagði Jósef þegar fyrsta barn þeirra fæddist. Það var drengur. „ Já, hann skal heita Manasse, því það þýðir að gleyma. En nú hefur Guð látið mig gleyma allri ógæfu minni.“
Áður en góðu árin sjö voru liðin eignaðist Manasse lítinn bróður. Sá var nefndur Efraím.
Síðan komu erfiðu árin. Góðu árin voru búin. Sprettan var ekki bara léleg í Egyptalandi heldur einnig í nágrannalöndunum. Þá opnaði Jósef forðabúrin í borgunum. Nú var hægt að kaupa korn.
Bræður Jósefs fara til Egyptalands
Það fréttist til næstu landa að hægt væri að kaupa korn í Egyptalandi. Menn komu þangað úr öllum áttum. Korn urðu þeir að fá, annars beið hungurdauði þeirra.
Á heimaslóðum Jósefs í Kanaanlandi var líka mikill skortur. Jakob sagði við syni sína: „ Ég hef heyrt að korn fáist í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið svo við lifum þessar þrengingar af.“
Tíu af bræðrum Jósefs héldu nú af stað. En Benjamín, sem var yngstur, varð eftir heima.
Sá sem seldi kornið í Egyptalandi var enginn annar en Jósef. Hann þekkti bræður sína þegar þeir komu, en þeir ekki hann. Jósef stóð frammi fyrir þeim eins og hver annar ókunnugur maður hefði gert. Var fastmæltur og ákveðinn í röddu. „Hvaðan komið þið?“ spurði hann.
Þeir svöruðu: „ Frá Kanaanlandi til að kaupa korn til matar.“
Jósef sagði við þá: „ Þið eruð njósnarar. Þið eruð komnir hingað til að sjá hvar varnir landsins eru veikastar fyrir.“
Bræðurnir andmæltu: „ Nei, herra, við erum engir njósnarar. Við erum komnir til að kaupa korn og erum ósköp venjulegir menn.Við erum tólf bræður. Sá yngsti er heima hjá föður okkar, en einn er dáinn.
En Jósef vildi reyna þá. Hann lét varpa þeim í fangelsi og þar fengu þeir að sitja í þrjá daga.
Á þriðja degi mælti Jósef við þá:
„Ef þið viljið lifa skuluð þið fara að orðum mínum: Einn ykkar verður hér eftir sem gísl. Hinir kaupa korn og fara með það heim. Síðan komið þið aftur og þá hafið þið með ykkur yngsta bróðurinn.“
Bræðurnir gátu ekki annað en hlýtt þessum ráðum. Þeir ræddu nú málin sín á milli og varð ljóst hve illa þeir höfðu komið fram við bróður sinn endur fyrir löngu.
Þeir sögðu: „ Við sáum hvað hann var hræddur en okkur var alveg sama. Og nú erum við dauðhræddir!“
Rúben sagði við þá: „ Já, sagði ég ykkur ekki að gera honum ekkert illt? Sagði ég það ekki? En þið hlustuðuð ekki á mig!“
Jósef heyrði þetta allt saman en bræðurnir höfðu ekki hugmynd um að hann skildi allt sem þeir sögðu. Hann gat ekki varist gráti og gekk afsíðis. Skömmu síðar fór hann aftur til þeirra. Hann skipaði að Símeon skyldi verða eftir sem gísl þar til hinir bræðurnir kæmu með Benjamín. Þeir horfðu á þegar Símeon var settur í fangelsið.
Nú bauð Jósef að pokar þeirra bræðra skyldu fylltir korni. Hann mælti líka svo fyrir að peningar, sem bræðurnir höfðu greitt kornið með, skyldu lagðir í kornpokana. Þeir skyldu fá fé sitt aftur. Og nesti til heimferðarinnar skyldu þeir líka fá. Þá bundu þeir kornpokana á asna sína og héldu heimleiðis.
Bræðurnir koma heim
Bræðurnir áðu á leiðinni heim þegar þeir voru hvíldar þurfi. Einn þeirra opnaði kornpoka til að gefa asna sínum að eta. Sá hann þá silfurpeninga sína liggja í korninu. Hann skildi hreint ekkert í þessu.
Þeir höfðu frá mörgu að segja þegar þeir komu heim til föður síns. Þeir höfðu verið grunaðir um að vera njósnarar og þurftu að sanna að svo væri ekki heldur væru þeir ósköp heiðarlegir menn. Þeir hefðu verið neyddir til að skilja Símeon eftir í fangelsinu. Og þeim tókst að fá keypt korn! Þeir þyrftu að fara aftur til Egyptalands og Benjamín ætti að koma með svo Símeon yrði látinn laus úr haldi. Allt þetta sögðu bræðurnir Jakobi föður sínum.
Síðan opnuðu þeir kornpoka sína og peningar þeirra ultu fram. Þeir urðu skelkaðir.
Jakob sagði: „ Ég verð barnlaus. Jósef er horfinn og Símeon líka. Og Benjamín viljið þið líka taka frá mér.“Rúben lofaði að Benjamín myndi koma aftur.
„ Nei, sagði Jakob, „Benjamín fer ekki með ykkur. Ef eitthvað hendir hann mun ég deyja úr sorg.“
En þegar kornið var búið og hungrið tók aftur að herja á fólkið sagði Jakob: „ Farið aftur til Egyptalands og kaupið korn.“
Júda svaraði honum: „ Maðurinn í Egyptalandi sagði ákveðið að við mættum ekki koma aftur nema Benjamín kæmi með.“
Jakob undraðist hvað þeir höfðu sagt manninum mikið af högum sínum og sagði: „ Hvers vegna sögðuð þið honum að þið ættuð yngri bróður?“
Þeir svörðuð: „ Hann spurði okkur í þaula um alla fjölskylduna. Gat okkur grunað að hann heimtaði að Benjamín kæmi næst með okkur?“ Júda lofaði líka föður sínum að Benjamín myndi koma aftur. Og þá gaf Jakob sig.
„ Jæja,“ sagði Jakob, „það verður svo að vera. Fyllið poka ykkar af hinum bestu ávöxtum, hunangi, möndlum og gæðahnetum. Og takið með helmingi meira af silfri en síðast svo þið getið endurgreitt það sem var í kornpokunum. Þetta voru kannski einhver mistök. Guð veri með ykkur og fyrir alla muni komið heim með Símeon og Benjamín.“
Og bræðurnir héldu aftur af stað til Egyptalands á fund Jósefs.
Jósef tekur á móti bræðrum sínum
Þegar Jósef sá að Benjamín kom með þeim bauð hann ráðsmanni sínum að taka fram veisluföng.
„Fylgið þessum mönnum inn í hús mitt, “ sagði Jósef. „Þeir borða með mér hádegismat.“
Bræðrunum brá mjög við það að vera leiddir inn í hús Jósefs.
Þeir sögðu: „ Það er vegna silfurpeninganna sem voru í kornpokunum okkar. Nú ætlar hann að skamma okkur rækilega, taka asnana okkar og gera okkur að þrælum.“
Þeir gengu til ráðsmannsins og mæltu: „ Hlustaðu nú á okkur. Þegar við komum hingað síðast til að kaupa korn fengum við silfurpeningana okkar með í kornpokunum. Við höfum ekki minnstu hugmynd um hver lét þá í pokana. Við skilum þeim núna og erum auk þess með silfurpeninga fyrir korninu sem við kaupum í þessari ferð.“
Ráðsmaðurinn sagði við þá: „ Hafið engar áhyggjur. Það hefur verið Guð sem lét peningana í pokana ykkar.“
Ráðsmaðurinn vék frá þeim um stund og kom síðan með Símeon til þeirra. Ráðsmaðurinn lét færa þeim vatn svo þeir gætu þvegið af sér ferðarykið og asnar þeirra voru fóðraðir. Bræðurnir tóku síðan gjafir sínar fram því von var á Jósef á hverri stundu.
Þegar Jósef gekk inn stóðu bræður hans þar og hneigðu sig jafnskjótt fyrir honum. Þeir hneigðu sig djúpt til jarðar. Jósef heilsaði þeim innilega og spurði frétta. Hann furðaði sig á því að faðir þeirra skyldi vera enn á lífi. Þeir gátu fært honum þær fréttir að hann væri bara góður til heilsunnar. Og þeir hneigðu sig aftur.
Jósef kom auga á Benjamín og spurði: „ Er þetta yngsti bróðir ykkar?“ Hjarta Jósefs sló ótt og títt. Hvað honum þótti vænt um Benjamín! Jósef var svo hrærður að hann gat ekki sagt eitt aukatekið orð og gekk því inn í herbergið sitt og grét. Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk inn til þeirra.
„Komið nú með matinn,“ sagði Jósef. Allir snæddu af hjartans lyst og drukku. Þetta var stórfengleg veisla!
Silfurbikarinn
Jósef sagði við ráðsmanninn sinn: „Láttu eins mikið korn í poka bræðranna og þú getur í þá troðið. Leggðu síðan silfurpeninga þeirra efst í poka hvers og eins. Og bikarinn minn, já silfurbikarinn góða, skaltu leggja efst í poka yngsta bróðurins.“
Næsta morgun héldu bræðurnir af stað þegar bjart var orðið.
Þegar þeir voru komnir lítið eitt út fyrir borgina sagði Jósef við ráðsmann sinn: „Farðu nú á eftir þeim og þegar þú nærð þeim skaltu spyrja þá hvers vegna þeir hafi stolið silfurbikarnum mínum.“
Ráðsmaðurinn hélt í skyndi af stað og náði bræðrunum fljótt. Hann sakaði þá um að hafa stolið silfurbikarnum. Þeir reyndu að fullvissa hann um að þeir hefðu engu stolið. Þeir hefðu meira að segja skilað silfurpeningunum sem fundust í kornpokunum eftir fyrri ferðina. Hvers vegna ættu þeir að stela silfri núna eða gulli?
Ráðsmaðurinn krafðist þess að leitað yrði í öllum pokunum og ef silfurbikarinn kæmi í ljós skyldi sökudólgurinn verða þræll. Bræðurnir samþykktu orðalaust. Þeir vissu ósköp vel að enginn þeirra hafði stolið neinu.
Þeir tóku kornpokana rösklega fram, opnuðu þá og ráðsmaðurinn leitaði í þeim. Hann byrjaði á poka þess yngsta. Og silfurbikarinn fannst í poka Benjamíns, yngsta bróðurins.
Bræðrunum varð heldur en ekki bilt við og þeir fylltust örvæntingu. Þeir bundu kornpokana á asna sína og sneru aftur til borgarinnar. Þeir héldu rakleiðis á fund Jósefs, en vissu ekki hvað segja skyldi.
„Sá sem stal silfurbikarnum mínum verður þræll minn, “sagði Jósef. „Þið hinir farið heim til föður ykkar.“
Þá steig Júda fram og talaði lengi: „Hlustaðu nú á mig, herra, og vertu ekki reiður. Þú spurðir í fyrstu ferð okkar hingað um bróður okkar og föður. Þú krafðist þess að við kæmum með yngsta bróður okkar hingað. Faðir okkar, sem er gamall maður, vildi í fyrstu ekki leyfa Benjamín að fara, en við lofuðum honum því að hann kæmi aftur heim. Ef við komum heim og hann er ekki með okkur þá deyr faðir okkar af harmi. Leyfðu mér að vera eftir í stað Benjamíns. Það vil ég miklu frekar en snúa heim án Benjamíns.“
Jósef fyrirgefur bræðrum sínum.
Jósef lét alla fara út úr herberginu nema bræður sína.
Nú varð hann að segja þeim hver hann var!
Egyptarnir sem stóðu fyrir utan heyrðu Jósef segja grátandi: „Ég er Jósef! Er pabbi á lífi?“
Bræðurnir voru skelfingu lostnir og gátu ekki stunið upp orði.
Jósef hélt áfram: „Ég er Jósef, bróðir ykkar sem þið selduð til Egyptalands. Guð sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga fólki. Guð gat bjargað ykkur vegna þess að ég var hér.
Það voruð ekki þið sem senduð mig hingað heldur Guð. Hann hefur gert mig að æðsta ráðgjafa konungsins og næstan sér að virðingu og valdi í öllu Egyptalandi. Hraðið ykkur nú heim og segið föður okkar að flytja hingað strax. Hér þurfið þið ekki að líða skort.“
Bræðurnir fóru heim. Þeir höfðu með sér korn, brauð og aðrar vistir. Þeir fengu líka góð föt til fararinnar og vagna til að aka. Jósef sendi föður sínum tíu asna klyfjaða öllu því besta sem Egyptaland hafði upp á að bjóða.
„Farið nú ekki að rífast á heimleiðinni,“ sagði Jósef þegar bræður hans lögðu af stað.
Jakob faðir þeirra fékk nú þær fréttir að Jósef væri ekki dáinn heldur lifandi og kominn til æðstu valda í Egyptalandi. Í fyrstu trúði hann ekki sínum eigin eyrum. Þá fékk hann að sjá vagnana og allt það sem Jósef hafði gefið þeim. Jakob vildi halda strax af stað til Egyptalands.
„Sonur minn lifir,“ sagði hann, „sonur minn er lifandi!“
Jakob, sem Guð hafði kallað Ísrael, fluttist með alla fjölskylduna sína til Egyptalands.
Jósef ók í vagni sínum til Gósen. Þar hittust þeir Jósef og faðir hans. Jósef faðmaði föður sinn að sér og grét.
Jakob sagði: „Nú fer allt vel. Ég veit að þú lifir því ég hef fengið að sjá þig með eigin augum.“
Því næst sagði Jósef við bræður sína: „Nú segi ég konunginum frá því að þið séuð komnir. Ég segi honum að þið séuð fjárhirðar og séuð hingað komnir með fé ykkar. Þið fáið að búa í Gósen.“
Konungurinn leyfði föður Jósefs og bræðrum hans að búa í Gósenlandi, en þar voru landkostir bestir í Egyptalandi.