Lúkas 1:39
Nokkrum dögum eftir að engillinn hafði heimsótt Maríu og sagt henni að hún væri þunguð, fór hún í heimsókn til Elísabetar, frænku sinnar. En Elísabet var líka þunguð. Það var um langan veg að fara. Hún kom að húsi hennar og Sakaría og spurði eftir Elísabetu. Þegar Elísabet heyrði rödd Maríu fann hún hvernig barnið kipptist við í kviði hennar.
Hún hrópaði hátt: ,,Þú skalt verða sælli en aðrar konur og blessað verði barnið sem þú gengur með. Þegar ég heyrði í þér fann ég hvernig barnið í mér tók viðbragð af gleði. Þú ert hamingjusöm því þú trúðir. Allt verður nákvæmlega eins og Drottinn hefur sagt.”
Þá þakkaði María Guði fyrir að gefa sér þetta stórkostlega hlutverk, að fæða son Guðs. Hún söng fyrir Guð af gleði því hann gleymdi ekki fátækum og stóð allaf við loforð sín, sem hann gaf mönnunum. Nú var hún ekki lengur hrædd.
María dvaldi í þrjá mánuði hjá Elísabetu. Þær höfðu um svo margt að tala. Síðan sneri hún aftur heim til sín.