Í húsi nokkru sat móðir og horfði á nýfædda barnið sitt. Það var lítill fallegur drengur. Hún vildi alls ekki að honum yrði kastað í Nílarfljót!
Hún faldi litla drenginn sinn. Eldri systkini hans, þau Aron og Mirjam, lofuðu að segja engum frá því að þau höfðu eignast lítinn bróður.
Barnið stækkaði og dag nokkurn áttaði mamma hans sig á því að hún gæti ekki lengur falið hann. Hún varð að láta hann frá sér.
Hún gerði körfu úr sefgrasi og lét litla drenginn sinn í hana. Síðan setti hún lok ofan á því enginn mátti sjá hvað hún geymdi í körfunni.
Þegar hún hafði lokið þessu kallaði hún á stóru systur drengsins, hana Mirjam. Þær hjálpuðust að við að bera körfuna niður að fljótinu. Þar földu þær körfuna í sefgrasinu næst bakkanum.
Móðir drengsins fór heim en Mirjam stóð álengdar hjá bakkanum og fylgdist með hvað yrði af körfunni.
Þá kom dóttir konungsins ásamt þjónustustúlkum sínum niður að fljótinu til að baða sig. Hún kom auga á eitthvað í sefgrasinu. Hvað gat þetta verið? Hún bað eina af þjónustustúlkunum sínum að gæta að þessu.
Þegar þjónustustúlkan kom aftur hélt hún á körfu. Dóttir konungsins tók lokið af henni og þá sáu þær lítinn dreng sem grét. Dóttir konungsins kenndi í brjósti um hann.
Hún sagði: ,,Þetta er einn af drengjum Ísraelsmanna sem hefur verið borinn út. Faðir minn hefur fyrirskipað að þeim skuli kastað í fljótið. En þennan litla strák fær hann ekki að deyða. Hann verður sonur minn.”
Mirjam heyrði hvað hún sagði. Hún gekk í veg fyrir dóttur konungsins og spurði: ,,Viltu að ég sæki konu sem getur haft hann á brjósti og litið eftir honum?”
Dóttir konungsins svaraði: ,,Já, endilega. Náðu í hana.”
Mirjam hljóp heim í hendingskasti og náði í móður sína. Hún hugsaði um litla drenginn sinn þar til hann varð eldri. Þá fluttist hann til dóttur konungsins. Hún gaf honum nafnið Móse.