Naman og litla þjónustustúlkan

II.Konungabók 5

Naman var hershöfðingi í her Sýrlandskonungs. Hann var hugrakkur maður og hraustur. Sýrlandsher hafði unnið marga frækna sigra undir hans stjórn. Honum var allt gefið hvort heldur það var nú vald og auður, frægð eða fagurt heimili. En eitt hrjáði hann og enginn kunni ráð gegn því, holdsveiki og hún var ólæknanleg.

Dag einn þegar kona Naamans var að segja vinkonu sinni frá sjúkdómi  eiginmannsins gekk þar ung vinnustúlka hjá og sagði:,,Ég veit um mann sem getur læknað hann.”

Ungu stúlkunni hafði verið rænt í Ísrael og herflokkur Naamans flutti hana til Sýrlands.

,,Óskaplega væri það gott ef húsbóndi minn myndi hitta spámanninn í Samaríu,” sagði hún og átti við Elísa spámann.

Naaman fór á fund konungs og hann gaf honum leyfi til að fara til Samaríu. Ég verð að taka með mér góðar gjafir handa þessum spámanni, hugsaði Naaman með sjálfum sér. Hann hélt síðan af stað til Elísa með fjölda þjóna og úlfalda klyfjaða gulli og silfri ásamt hátíðarklæðum. Þetta var glæsileg fylking og fólk dreif að úr öllum nærliggjandi þorpum til að sjá þennan fræga hershöfðingja. Naaman brá litfagurri skikkju sinni yfir sig svo ekki sæist að hann væri holdsveikur.

Þessi fríða fylking nam staðar þegar hún kom að húsi Elísa. Þjónn Elísa kom út og sagði: ,,Húsbóndi minn segir:,,Þú skalt baða þig sjö sinnum í ánni Jórdan og þá verður þú heilbrigður.”

Naaman brást reiður við þessum orðum og hrópaði: ,,Þvo mér? Upp úr þessu óhreina vatni?” Hann vildi helst snúa við og halda heim á leið til Sýrlands.

Honum fannst illa komið fram við sig. Hann var kominn til að hitta spámanninn mikla og hafði ekki einu sinni fengið að tala við hann sjálfan heldur þjón hans.

Þjónar Naamans komu til hans einn af öðrum og sögðu:,,Hefðir þú ekki farið strax að orðum spámannsins ef hann hefði beðið þig um að gera eitthvað erfiðara en að þvo þér? Þú getur nú auðveldlega gert þetta.”

Naaman vissi að þeir höfðu á réttu að standa. Hann gekk fram á árbakkann og fór úr skónum. Fætur hans sukku í mjúka leðjuna. Því næst svipti hann af sér skikkjunni og kyrtlinum og öslaði út í miðja ána.

Naaman kafaði ofan í ána eitt andartak og kom svo upp úr. Hann sá ekki betur en að húðin væri enn alsett sárum og kýlum holdsveikinnar. Spámaðurinn hafði sagt honum að þvo sér sjö sinnum svo hann dró djúpt andann og kafaði öðru sinni. Hann fann hvernig gruggugt vatnið umlukti höfuð hans.

Loks kom hann úr kafi í sjöunda sinn. Hann horfði á hendur sínar. Húðin var undurmjúk og hrein eins og á barni. Og líka fæturnir. Ekki eitt einasta ör var að sjá á öllum líkamanum. Sjúkdómurinn var með öllu horfinn!

Þjónar Naamans horfðu á hershöfðingjann mikla þrumu lostnir þegar hann steig upp úr ánni. Þeir krupu niður í auðmýkt; lofuðu og þökkuðu Guði Ísraels.

Naaman klæddist og hraðaði sér síðan beint til Elísa. ,,Nú veit ég,” sagði hann, ,,að enginn guð er jafn Guði Ísraels.”

Elísa horfði á hann vinsamlegur á svip. Þegar Naaman tók fram gjafir sínar og bauð að gefa honum neitaði hann og sagði:,,Ég er þjónn Drottins og tek ekki við gjöfum frá þér.”

Naaman sárbændi hann að taka við gjöfum en Elísa þvertók fyrir það og vildi ekkert þiggja.

Þegar Naaman kom heim var honum fagnað innilega. Unga stúlkan varð glöð í bragði þó fjarri væri hún heimalandi sínu og ambátt í ókunnu landi. Hún hafði þó getað sagt húsmóður sinni í Sýrlandi frá Elísa og hve kröftugur Guð Ísraels væri.

To Top