Skuldugi þjónninn

Matt.18:21-35

Einu sinni var konungur sem átti marga þjóna.  Nokkrir skulduðu honum peninga. Dag einn var færður til hans þjónn sem skuldaði konunginum tíu þúsund talentur sem voru miklir peningar. En þjónninn átti enga peninga. Það þýddi að allt yrði tekið frá honum: Heimili hans, börn og eiginkona yrðu seld til að borga skuldina. Þjónninn var skelfingu lostinn. Hann féll niður við fætur konungsins og grátbað hann að gefa sér lengri frest til að borga það sem hann skuldaði.

En konungurinn kenndi í brjósti um manninn og gaf honum upp skuldina.

Það þýðir að hann þurfti ekki að borga krónu til baka.

Þjónninn varð mjög glaður og feginn.

Þegar þjónninn var kominn út frá konunginum hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara, sem voru miklu minni peningar en þjónninn sjálfur hafði skuldað konunginum. Í stað þess að segja við samþjón sinn að hann þyrfti ekki að borga þessa hundrað denara þá skipaði þjónninn samþjóninum að borga það sem hann skuldaði.

Samþjónninn lagðist við fætur hans og bað hann um lengri frest til að borga það sem hann skuldaði.

En þjónninn vildi það ekki, heldur lét kasta honum í fangelsi þangað til hann hafði greitt skuldina.

Það voru fleiri þjónar í höllinni. Þeir urðu mjög sorgmæddir yfir því hvað þjónninn hafði verið grimmur. Þeir fóru til konungsins og sögðu honum frá þessu. Konungurinn kallaði þjóninn til sín.

Hann sagði við hann: ,,Grimmi þjónn, ég sagði þér að þú þyrftir ekki að borga mér skuldina. Þátt áttir þú að vera sanngjarn við samþjón þinn og gefa honum upp skuldina.  Ég var góður við þig og þú áttir að vera góður við samþjón þinn.”

Konungurinn er eins og Guð, hann er tilbúinn að fyrirgefa okkur og þá eigum við að vera tilbúin að fyrirgefa hvert öðru. Þessa dæmisögu sagði Jesús til þess að við munum eftir því að vera góð hvert við annað.

Þegar við biðjum bænina Faðir vor segjum við: Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Það þýðir: Fyrirgef þú okkur það sem við gerum rangt og við fyrirgefum líka öðrum sem hafa gert okkur eitthvað rangt.

To Top