Þegar Jesús var fæddur komu nokkrir vitringar frá fjarlægum Austurlöndum til borgarinnar Jerúsalem. Vitringarnir gátu lesið margt úr stjörnum himinsins. Þeir ferðuðust á úlföldum og stöldruðu við í höll Heródesar konungs.
,,Hvar finnum við nýfæddan konung Gyðinga?” spurðu þeir. ,,Við höfum séð nýja stjörnu á himninum. Hún segir okkur að konungur sé fæddur. Við erum komnir hingað til að færa honum gjafir okkar.”
Þegar Heródes konungur heyrði þessi tíðindi varð hann skelkaður. Hann kallaði saman lærða menn sem þekktu ritningar þeirra mjög vel. Síðan spurði hann þá hvar konungurinn Messías ætti að fæðast.
Þeir svöruðu: ,,Í Betlehem í Júdeu, eins og spámaðurinn sagði.”
Þá kallaði Heródes vitringana til sín svo lítið bar á og yfirheyrði þá um hve lengi þeir hefðu séð stjörnuna. Að því búnu sendi hann þá til Betlehem.
,,Farið þangað og fáið að vita allt um barnið,” sagði hann. ,,Látið mig svo vita þegar þið verðið búnir að finna barnið, svo ég geti líka komið og veitt því lotningu.”
Vitringarnir héldu nú af stað. Stjarnan fór fyrir þeim á himnum og vísaði veginn.
Loks nam hún staðar yfir húsinu þar sem barnið var. Þeir gengu inn í húsið og fundu barnið og móður þess, Maríu. Vitringarnir hneigðu sig djúpt og féllu á kné frammi fyrir barninu; opnuðu fjárhirslur sínar og tóku upp úr þeim gjafir góðar: gull, reykelsi og myrru.
Guð kom til vitringanna í draumi og sagði að þeir skyldu ekki fara aftur á fund Heródesar. Þess vegna fóru þeir aðra leið heim til sín.