Bartímeus blindi

Betlarinn Bartímeus sat við veginn skammt frá Jeríkó. Hann var blindur. Hann betlaði af þeim sem gengu fram hjá honum.

Dag nokkurn frétti hann að Jesús færi þar um veginn. Jesús!  Bartímeus fylltist ákafa.

Hann tók að hrópa hástöfum: ,,Jesús, hjálpaður mér!”

Hvílík læti, hugsaði fólkið með sér þegar það heyrði hróp betlarans. Margir sögðu honum að hafa hljótt um sig og þegja.

En gat hann þagað þegar Jesús var þar á ferð?

Nei, hann hrópaði bara enn hærra: ,,Jesús, hjálpaðu mér!”

Jesús fór um veginn. Þá heyrði hann að einhver var að hrópa á hann. Já, einhver var að kalla og biðja um hjálp.

Hann nam staðar og sagði við fólkið sem þrengdi sér að honum: ,,Segið honum að koma hingað.”

Fólkið kallaði á betlarann.

,,Vertu rólegur,” sagði fólkið við hann. ,,Stattu upp, þú átt að koma til hans.”

Jesús hafði heyrt til hans! Kannski gat Jesús hjálpað honum! Já, auðvitað fengi hann hjálp. Bartímeus spratt á fætur, fleygði frá sér yfirhöfn sinni og hljóp til Jesú.

Þeir stóðu andspænis hvor öðrum, blindi betlarinn Bartímeus og Jesús.

,,Hvað viltu að ég geri fyrir þig?” spurði Jesús.

,,Herra, gefðu mér sjón svo ég sjái aftur,” sagði Bartímeus.

Jesús sagði þá við hann: ,,Farðu leiðar þinnar. Trú þín hefur hjálpað þér.”

Á sömu stundu fékk Bartímeus sjónina aftur. Jesús hjálpaði honum.

Hann slóst í för með Jesú og lofaði Guð.

Og allt fólkið sem sá þetta söng Guði lof.

To Top