Miskunnsami Samverjinn

Maður nokkur, sem kunni lögmál Gyðinga í þaula, kom til Jesú. Hann var að velta því fyrir sér hvað hann ætti að gera til að eignast eilíft líf.

Jesús lagði spurninguna fyrir hann: ,,Hvað stendur í lögmálinu?”

Maðurinn svaraði: ,,Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

,,Það er alveg rétt,” svaraði Jesús, ,,gerðu það og þú munt eignast eilíft líf.”

,,En hver er náungi minn?” spurði maðurinn þá.

Þeirri spurningu svaraði Jesús svo:

,,Eitt sinn fór maður um veginn sem liggur frá Jerúsalem til Jeríkó. Á leiðinni réðust ræningjar á hann. Þeir rifu fötin utan af honum, rændu hann og börðu til óbóta. Þeir stungu síðan af og skildu manninn eftir nær dauða en lífi.

Prestur nokkur fór um sama veg. Þegar hann sá manninn strunsaði hann yfir á hina vegarbrúnina og hraðaði sér fram hjá.

Og sama gerði aðstoðarmaður prestsins sem fór um veginn skömmu síðar. Hann hljóp við fót þegar hann sá hvers kyns var.

Um þennan veg fór líka Samverji nokkur. Hann sá manninn liggja særðan á veginum og fann sárlega til með honum þar sem hann lá í blóði sínu, einn og yfirgefinn.

Hann gekk til hans, batt um sár hans og hlúði að honum. Síðan lyfti hann honum upp á asna sinn og fór með hann á gistihús og lét sér annt um hann.

Næsta dag rétti hann gestgjafanum tvo silfurpeninga og sagði við hann:

,,Hugsaðu vel um hann. Og ef það kostar meira en þetta þá borga ég þér á bakaleiðinni.”

Jesús spurði: ,,Hver þessara manna kom fram við særða manninn eins og náunga sinn?”

Maðurinn svaraði: ,,Sá sem hjálpaði honum.”

Þá sagði Jesús við hann: ,,Farðu og gerðu það sama.”

To Top