Eyrir ekkjunnar

Markús 12:41-44

Fyrir utan musterið var stór söfnunarbaukur. Karlar og konur gengu framhjá bauknum og settu peninga í hann. Sumir voru mjög ríkir. Þeir létu mörg þúsund krónur í baukinn, brostu út í annað en héldu svo áfram að tala hver við annann eins og ekkert hefði í skorist. Þeir voru ekki áhyggjufullir því þetta var lítið brot af því sem þeir áttu.
,,Get ég gert þetta?” hugsaði kona nokkur með sér þegar hún gekk niður musteriströppurnar. ,,Á ég nóg fyrir mat?” Hana langaði svo að gefa peninga sína. Þetta var fátæk kona en samt hafði hún ákveðið að gefa eins mikið og hún gæti. Hún gekk að söfnunarbauknum. ,,Hvað ætti ég að gefa mikið af peningunum mínum?” hugsaði hún með sér. ,,Nei, hvað ef ég þyrfti nú að nota þá sjálf?” Hún velti vöngum. ,,En ég á brauð heima og svolitla mjólk. Ég get látið það duga mér í nokkra daga. Ég er viss um að mér áskotnast eitthvað.” Og konan setti alla peningana sína í söfnunarbaukinn. Hún var glöð. Hún var glöð af því að hún gat gefið öðrum og gert gagn.
Hinum megin við götuna stóð Jesús ásamt lærisveinum sínum.
,,Sáuð þið þessa konu?” sagði hann. ,,Hún gaf alla peningana sem hún átti. Hún gaf miklu meira en ríku mennirnir.”
,,Hvað áttu við?” spurðu lærisveinarnir forviða.,,Hún gaf miklu minna en þeir. Hún setti bara tvær krónur í baukinn á meðan þeir settu mörg þúsund krónur.”
,,Já, þeir gáfu bara pínulítinn hluta af öllum peningunum sínum,” sagði Jesús. ,,En konan gaf alla peningana sem hún átti.”
Lærisveinarnir litu hver á annan. ,,Hver finnur svo sem fyrir því að gefa nokkur þúsund krónur ef hann á margar milljónir?” sagði einn þeirra. ,,Ætli maður finni ekki meira fyrir því að gefa alla peningana sína?” sagði annar .
,,Jú, sagði sá þriðiji. En tókuð þið eftir því að margir sem eiga mikla peninga gefa samt bara lítið?”
,,Já, það er skrýtið,” sögðu lærisveinarnir hugsi.

To Top