Faríseinn

Lúkas 18.9-14

Einu sinni var maður sem  var farísei.
Farísear var hópur manna sem fór nákvæmlega eftir öllum lögum og reglum Biblíunnar. Þeir voru svo nákvæmir í því að framfylgja lögunum að þeim datt ekki í hug að brjóta þau og bættu jafnvel við lögin og gerðu þau mjög ströng. Akím var einmitt þannig.
Í lögunum stóð að það mætti ekki vinna handtak á hvíldardögum og Akím fór svo sannarlega eftir því.
Vegna þess hve flinkur hann var í því að fara eftir öllum þessum lögum og reglum, fannst honum hann sjálfur vera mjög góður og frábær. Sjálfur Guð hlaut að vera afar ánægður með hann!
Það var ekki laust við að Akím væri svolítið montinn yfir þessu. Þegar hann gekk um götur bæjarins þá stoppaði hann stundum á götuhornunum, spennti greipar og bað. Hann vildi tryggja að allir sæju hvað hann væri trúaður og löghlýðinn maður. Svo hafði hann fyrir sið að gefa fátækum peninga og gætti þá vel að því að fólk tæki eftir því hvað hann var góður að gefa.
Annar maður hér Jónatan. Hann var tollheimtumaður.
Tollheimtumenn unnu við það að rukka alla sem komu inn um borgarhliðin. Þeir voru þekktir fyrir það að svindla á fólki og láta það borga helmingi meira en því bar. Svo stungu þeir peningunum í sinn eigin vasa. Allir vissu að tollheimtumenn voru svikarar og fólki var afar illa við þá.

Nú bar svo við að faríseinn og tollheimtumaðurinn voru báðir staddir í musterinu.
Faríseinn skotraði augunum að tollheimtumanninum, hló innra með sér og fann til gleði yfir því að vera ekki svona óheiðarlegur og hann.
Svo spennti hann greipar og sagði djarflega: – Þakka þér fyrir, góði Guð, að ég er ekki eins og aðrir menn sem stela og eru óheiðarlegir. Þakka þér fyrir að ég er ekki eins og þessi tollheimtumaður þarna.

Á sömu stundu bar tollheimtumaðurinn upp bæn sína. Honum leið illa. Hann hafði slæma samvisku. Hann langaði til þess að verða betri. -Góði Guð, vertu mér syndugum líknsamur. Hjálpaðu mér að verða að betri manni en ég er. Fyrirgefðu syndir mínar.

Jesús spyr: Við hvora bæn haldið þið að Guði hafi líkað betur?

To Top