Fylgið mér

Lúkasarguðspjall 5

Dag nokkurn gekk Jesús sem oftar niður að vatninu við Kapernaum.  Mikill fjöldi fólks fylgdi honum, börn hlupu allt í kring og ærsluðust. Sumir kölluðu fram spurningar til hans og aðrir veifuðu til merkis um að þeir vildu ná athygli hans. Allir vildu heyra hvað hann sagði. Mannþröngin var svo mikil að hver tróðst um annan þveran.

Í fjörunni var fiskibátur sem Andrés átti með Símoni bróður sínum sem seinna var kallaður Pétur. Bræðurnir stóðu þarna og voru að þvo net sín þegar Jesús kallaði til þeirra. Hann bað þá að leysa landfestar.

,,Leggjum aðeins frá landi svo allt fólkið heyri hvað ég segi,” sagði Jesús.

Ætlaði hann að tala úr bátnum? Símon hafði aldrei heyrt talað um slíkt. Og úr bátnum hans? Hann hristi höfuðið undrandi á svip og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. En þeir hlýddu honum og lögðu frá landi. Símon, Andrés og Jesús. Jesús stóð upp í bátnum og talaði lengi dags til fóksins á ströndinni.

Seinna um daginn þegar allt fólkið var farið ætlaði Símon að róa í land. Jesús bað hann að bíða með það og róa þess í stað lengra út á vatnið.

,,Hvers vegna?” spurði Símon.

,,Við skulum halda til veiða.”

,,Á þessum tíma dags?”

Símon og Andrés reru alltaf til fiskjar að nóttu til. Þeir lögðu net sín ofurvarlega í vatnið þar sem þeir töldu veiðivon. Símoni fannst kyrrt og hlýlegt augnaráð Jesú segja sér að hann ætti að fara að oðrum hans. Þessi reyndi fiskimaður var þó á báðum áttum því hann var vanur að treysta sjálfum sér og engum öðrum. Hann yppti öxlum og settist á þóftuna, greip árarnar og reri út á mitt Galelíuvatn.

Annar bátur kom í kjölfar þeirra. Þar voru á ferð þeir Jakob og Jóhannes. Þeir furðuðu sig á því að Andrés og Símon væru á veiðum þegar dagur var heitastur.  Allt í einu sáu þeir að Andrés baðaði út öllum öngum til þeirra og hrópaði eitthvað. Hann hallaði sér fram yfir borðstokkinn og var nær fallinn útbyrðis. Símon stóð upp og bisaði við að draga netin upp með höndunum. Þau voru full af fiski, vænum og spriklandi, gljáandi og sindrandi í sólskininu.

,,Jakob! Jóhannes” Andrés veifaði æstur til vina sinna. ,,Þetta er mokafli og hann sekkur bátnum!” Þeir réru ákaft til hans og náðu taki á netunum og hlóðu báða bátana. Síðan héldu þeir til lands og áratogin voru þung því aflinn var undarlega mikill.

Um leið og þeir náðu landi óð Símon út í vatnið en Jakob og Jóhannes drógu aflann í land. Þetta var kraftaverk!  Símon horfði ekki á Jesú heldur settist og gróf andlit sitt í höndum sér.

Jesús kom og lagði hönd á öxl Símoni.

,,Farðu frá mér, herra,” sagði Símon.

Jesús horfði blíðlega á hann.

,,Herra”, sagði Símon og tárin hrundu niður hrjúfar kinnar hans. ,,Ég er syndugur maður.”

Hann var miður sín yfir að hafa ekki treyst Jesú.

,,Vertu ekki hræddur Símon, ” sagði Jesús og brosti. ,,Nú er kominn tími til að þú snúir þér að öðrum veiðum. Héðan í frá skalt þú menn veiða!”

To Top