Hver er Jesú?

Saga Jesú byrjar fyrir meira en 2000 árum í sólríku landi við austurströnd Miðjarðarhafsins. Þar bjuggu Gyðingar sem trúðu því að Guð hefði gefið þeim mjög sérstakt loforð. Hann ætlaði að senda þeim konung. Það yrði enginn venjulegur konungur heldur myndi hann frelsa þá frá öllu illu og hjálpa þeim til að lifa sem þjóð Guðs.

Dag nokkurn kom engill til ungrar konu sem hét María og átti heima í Nasaret. Engillinn sagði henni að Guð hefði valið hana til að fæða konung. Hann ætti að heita Jesús. Kærasti Maríu hét Jósef og hann ákvað að ala drenginn upp ásamt Maríu. Nóttina sem Jesús fæddist í Betlehem sungu englarnir af gleði. Vitringar frá Austurlöndum sáu stjörnu á himni og vissu að hún væri tákn um að konungur væri fæddur. Það var Jesús og þeir færðu honum gjafir.

Þegar Jesús var að alast upp sá fólk ekki betur en hann væri eins og hvert annað barn. Heima í Nasaret lærði hann smíðar af Jósef.

Dag nokkurn yfirgaf Jesús vinnu sína og heimili. Hann ferðaðist um og sagði fólki frá Guði. Jesús valdi tólf menn til að vera lærisveina sína. Þeir urðu vinir hans og hjálpuðu honum við að breiða út boðskapinn um Guð og kærleika hans.

Múgur og margmenni kom til að hlusta á Jesú.

,,Guð vill að þið elskið hvert annað,” sagði hann við fólkið. ,,Þið verðið meira að segja að elska óvini ykkar. Gleymið þeim ekki þegar þið biðjist fyrir og biðjið Guð að blessa þá.”

,,Fyrirgefið hvert öðru,” sagði Jesús. ,,Þá mun Guð fyrirgefa ykkur það sem þið hafið gert rangt.”

,,Gleymið aldrei að biðja til Guðs og talið við hann eins og þið væruð að tala við foreldra ykkar,” sagði Jesús.

Fólk safnaðist líka í kringum Jesú af því að hann gat unnið kraftaverk. Með því einu að snerta fólk gat hann læknað það. Jesús gaf blindu fólki aftur sjónina. Læknaði lamað fólk svo það gat aftur gengið. Hann læknaði fólk af alls konar sjúkdómum svo það varð alheilbrigt.

Kraftaverk Jesú voru ekki bara lækningar.

Eitt sinn sátu meira en fimm þúsund manns og hlustuðu á Jesú í heilan dag. Fólkið varð svangt. Eini maturinn sem var á staðnum voru fimm brauð og tveir fiskar. Jesús bað þakkarbæn til Guðs og lét síðan vini sína deila matnum út til fólksins. Maturinn dugði handa öllum!

Nótt eina fór Jesús um borð í bát ásamt vinum sínum. Þeir ætluðu að sigla yfir vatnið. Beljandi stormur skall á og vinir hans urði dauðhræddir í ölduganginum. Jesús stóð upp og skipaði storminum að hafa hljótt um sig. Samstundis datt allt í dúnalogn. Stormurinn var horfinn og úfið vatnið var orðið slétt.

Jesús sagði líka dæmisögur.

,,Hirðir nokkur átti hundrað kindur. Dag einn tók hann eftir því að eina kind vantaði í hópinn. Hann fór strax að leita að týndu kindinni og skildi hinar níutíu og níu eftir. Loksins fann hann kindina og hélt þá heim á leið. Síðan kallaði hann á vini sína og bað þá að fagna með sér því hann hefði fundið kindina sína sem var týnd.” Jesús sagði að Guð væri eins og þessi hirðir.

Jesús sagði líka þessa sögu:

,,Maður nokkur fór í ferðalag. Á leiðinni réðust ræningjar á hann og börðu til óbóta. Þeir skildu hann eftir liggjandi í blóði sínu á veginum.

Prestur nokkur kom þar að og sá manninn. En hann gerði ekkert heldur hraðaði sér í burtu. Annar maður fór um veginn og lét sem hann sæi ekki slasaða manninn.

Þá kom þar að útlendingur sem var Samverji. Hann sá manninn og kom honum strax til hjálpar. Fór með hann í gistihús og hlúði að honum.

Þið skuluð vera eins og þessi útlendingur sem lét sér annt um særða manninn.” Sagði Jesús við áheyrendur sína.

Mikill fjöldi manna hreifst af orðum Jesú og verkum. Þeim fannst allt sem hann sagði vera satt og rétt.

Dag nokkurn var Jesús ásamt lærisveinum sínum áleið til borgarinnar Jerúsalem en hún var mjög stór. Mikill mannfjöldi fagnaði honum innilega. Margir skáru greinar af pálmatrjám og veifuðu þeim af fögnuði. Þetta var fyrsti pálmasunnudagurinn.

En sumir voru ekki hrifnir af því sem Jesús gerði og sagði. Það voru trúarleiðtogarnir. ,,Jesús er vandræðamaður,” hvísluðu þeir. ,,Við verðum að losna við hann.”

Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa. Nokkrum dögum síðar borðaði hann síðustu kvöldmáltíðina með vinum sínum. Meðan þeir borðuðu varaði Jesús þá við og sagði að hann myndi deyja.

Jesús hafði á réttu að standa. Hann hafði ekki gert neitt rangt af sér en margir breiddu út ósannindi um hann. Á föstudeginum var Jesús krossfestur.

Nokkrir vinir Jesú lögðu líkama hans í gröf sem var eins og hellir. Síðan veltu þeir steini fyrir grafaropið.

Eldsnemma á sunnudagsmorgninum fóru nokkrar konur að gröf hans. Þær sáu að steininum hafði verið velt frá grafaropinu. Gröfin var tóm. Skömmu síðar sögðu vinir Jesú stórkostlegar fréttir: Þeir höfðu séð Jesú upp risinn!

Guð hafði reist Jesú upp frá dauðum til að sýna að orð hans voru rétt og sönn. Til að sýna að dauðinn átti ekki síðasta orðið.

Fjörtíu dögum síðar sáu vinir Jesú hann stíga upp til himna. Guð fyllti þá krafti og hugrekki svo að þeir gátu sagt öllum heiminum frá Jesú.

Já, breitt út fagnaðarerindi Jesú svo allir menn elski hver annan eins og Guð elskar þá.

Fagnaðarerindið segir okkur að Jesús hafi opnað mönnunum leið til Guðs og kærleiksríkis hans.

lb_jesuTekið úr Litla bókin um Jesú
Höfundur: Lois Rock
Myndir: Anna C. Leplar
Íslensk þýðing: Kaffistofan Sippóra
Útgefandi: Skálholtsútgáfan

To Top