Jónas í hvalnum

Jónas 1-4

Í stórborg nokkurri, sem hét Níníve, höfðu íbúarnir gleymt Guði. Þeir voru vondir og komu illa fram hver við annan. Þess vegna sendi Guð spámanninn Jónas til Níníve til að boða borgarbúum vilja Guðs.

En Jónas vildi ekki fara. Hann stakk af og fór um borð í skip sem var á leið til borgarinnar Tarsus.

Þegar skipið var langt úti í hafi lét Guð sterkan vind blása. Hann rauk upp í kröftugan storm og skipið var hætt komið í öldurótinu.

Skipverjar urðu mjög hræddir. Þeir köstuðu útbyrðis öllu lauslegu sem þeir fundu um borð í skipinu til að létta það. En Jónas svaf vært nirði í káetunni og vissi ekki hvað var á seyði.

Skipstjórinn vakti hann og sagði:,,Hvernig getur þú sofið í þessum látum?Farðu á fætur og bið Guð þinn um hjálp. Kannski bjargar hann okkur.”

Skipverjar sögðu hver við annan: ,,Köstum hlut um hverjum það sé að kenna að stormurinn hefur skollið á okkur.”

Upp kom hlutur Jónasar.

Þeir spurðu hann þá: ,,Hvaðan ertu? Hvers vegna ertu kominn hingað um borð? Hvaða þjóð tilheyrir þú?”

Jónas svaraði þeim:,,Ég er Hebrei og ég tilbið Drottinn Guð sem skapað hefur himin og jörð.”

Og Jónas sagði þeim af flótta sínum frá Guði sem hafði falið honum að vinna ákveðið verk fyrir sig.

Allir urðu þeir dauðskelkaðir og sögðu:,,Hvað hefur þú eiginlega gert maður? Og hvað eigum við að gera við þig til þess að veðurofsinn gangi niður?”

Jónas svaraði: ,,Kastið mér í sjóinn”

Þegar skipverjar sáu að þeir réðu ekki neitt við skipið og næðu því síður landi gerðu þeir eins og Jónas bað og fleygðu honum í sjóinn. Storminn lægði á augabragði.

En Drottinn sendi stóran hval sem gleypti Jónas. Þrjá daga og þrjár nætur var Jónas í maga hvalsins.

Síðan lét Guð hvalinn spúa Jónasi upp á þurrt land.

Þá talaði Guð aftur við Jónas og sagði: ,,Farðu til Níníve og flyttu borgarbúum skilaboð frá mér.”

Í þetta sinn hlýddi Jónas Guði. Hann fór til Níníve og varaði borgarbúa við:

,,Ef þið farið ekki að vilja Guðs verður borginni eytt eftir fjörutíu daga.”

Þá tók fólkið í Níníve trú á Guð og sá eftir öllu því vonda sem það hafði gert og lofaði að breyta líferni sínu. Þegar Guð sá breytinguna hætti hann við að leggja borgina í eyði.

En Jónas varð sárgramur.

,,Vissi ég ekki!” sagði hann við Guð, ,,að þú myndir hætta við allt vegna þess að þú vilt ekki gera mönnunum neitt illt. Þess vegna reyndi ég líka að flýja til Tarsusborgar.”

Hann yfirgaf borgina og reisti sér lítinn kofa rétt fyrir utan hana. Hann sat hjá kofanum og horfði yfir til Níníveborgar til að sjá hvort Guð myndi nú ekki eyða borginni.

Það var ákaflega heitt í veðri og þess vegna lét Guð lítinn runna spretta upp til að skýla Jónasi fyrir sólinni. Hann myndi kannski taka gleði sína á ný og reiðin rynni af honum. Og Jónas gladdist innilega yfir runnanum.

En morguninn eftir sendi Guð orm sem skreið um allan runnann svo hann skrælnaði.

Sólarhitinn ætlaði Jónas lifandi að drepa og að lokum stundi hann upp:,,Heldur vildi ég vera dauður en lifandi!”

En þá sagði Guð við Jónas:,,Hvers vegna ertu svona reiður þó runninn hafi skrælnað?”

,,Ég hef nú heldur betur ástæðu til þess að vera ævareiður og sár,” svaraði Jónas.

Guð mælti:,,Þér þykir leitt hvernig fór fyrir runnanum sem þú hafðir ekkert fyrir. Hann spratt upp á einni nóttu og skrælnaði síðan nóttina eftir. Ætti ég þá ekki miklu frekar að finna til með Níníveborg þar sem mikill fjöldi fólks býr? Og ekki þekkja þeir nú alltaf muninn á réttu og röngu! Já, og hugsaðu þér öll dýrin sem eru í borginni

To Top