Lamaði maðurinn við Betestalaug

Jóhannesarguðspjall 5:1-9

Það var að koma hátíð. Jesús ákvað að fara á hátíðina ásamt lærisveinum sínum. Hátíðin var í borginni Jerúsalem.
Í kringum borgina var stór múr og á múrnum voru nokkur hlið. Þannig að allir þeir sem vildu fara inn í borgina þurftu að fara í gegnum hlið.
Jesús og lærisveinar hans fóru í gegnum hlið sem heitir Sauðahliðið. Við Sauðahliðið er heilsulaug sem heitir á hebresku Betseda.
Í kringum laugina lá fjöldi manns. Allt þetta fólk var veikt. Jesús tók sérstaklega eftir einum manni sem lá þarna. Þessi maður var aleinn. Það var enginn hjá honum. Jesús gekk til hans og lærisveinarnir fylgdust með.
Maðurinn tók ekkert eftir því að Jesús nálgaðist. Hann lá bara þarna og hugsaði og bað.
– Góði Guð, viltu hjálpa mér að komast út í laugina svo ég geti gengið aftur.
Svo horfði hann á fólkið og hugsaði: -Allir eiga vini nema ég. Vini sem geta hjálpað þeim ofan í laugina. En ég er alltaf einn.
Nú stóð Jesús hjá honum. Hann horfði á hann og sagði: Viltu verða heill?
Maðurinn leit undrandi upp. Hann var ekki vanur því að einhver talaði við hann.
-Já, ég vil verða heill. En ég hef bara engan til þess að hjálpa mér ofan í heilsulaugina. Þú veist að engill Drottins kemur stundum og stígur ofan í vatnið. Hver sá sem er fyrstur ofan í það, læknast. En ég kemst aldrei ofan í laugina. Ég á engann að sem getur hjálpað mér.
Jesús horfði á manninn og brosti svo sagði hann: ,,Statt upp, tak rekkju þína og gakk!”
Allt í einu fann maðurinn hvernig styrkurinn kom í líkama hans og hann tók rekkjuna sína og gekk.
Maðurinn var búinn að biðja um að komast í laugina í mörg ár. En hvernig svaraði Jesús bæninni? Hjálpaði hann honum í laugina?
Nei, stundum svarar hann bænum okkar allt öðru vísi en við áttum von á.

Þessi saga segir okkur ekki bara frá bænasvari- heldur segir hún okkur líka að Jesús hugsar um þá sem eiga enga vini.

Við skulum gera eins og Jesú. Við skulum taka eftir þeim sem eiga ekki vini og vera vinir þeirra.
Jesús er vinur allra. Hann er vinur þeirra sem eiga enga vini.

To Top