Sakkeus

Lúkas 19:1-10

Jesús kom til Jeríkó og gekk um götur borgarinnar. Þar átti maður nokkur heima sem hét Sakkeus. Hann var tollheimtumaður og var ríkur. Allir sem fluttu varning til borgarinnar urðu að greiða toll.

Nú var Jesús kominn til borgarinnar og Sakkeus vildi gjarnan sjá Jesú. En það var ekki auðvelt fyrir Sakkeus því hann var mjög lágvaxinn og allt fólkið í kringum hann stóð fyrir honum svo hann sá ekki neitt. Þá hljóp Sakkeus smáspöl á undan fólkinu og klifraði upp í stórt tré.

Nú myndi hann sjá Jesú.

Þegar Jesús kom að trénu nam hann þar staðar.

Hann leit upp í tréð og sagði um leið og hann sá Sakkeus:,,Flýttu þér niður úr trénu, Sakkeus. Ég ætla að heimsækja þig í dag.”

Sakkeus gladdist innilega! Hann kom í skyndi niður úr trénu. Hann ætlaði svo sannarlega að bjóða Jesú velkominn heim til sín.

Fólkið sem stóð þarna fylltist reiði. Því fannst Sakkeus ekki vera góður maður né heiðarlegur. Allir vissu að Sakkeus hafði fé af fólkinu. Því fannst það ekki viðeigandi að Jesús heimsækti hann.

En Jesús vildi einmitt heimsækja Sakkeus.

Þegar heim var komið steig Sakkeus fram og sagði: ,,Ég ætla að gefa helming allra eigna minna til fátækra. Ég borga hverjum manni það fjórfalt aftur hafi ég svikið fé af honum.”

,,Í dag hefur hjálp borist þessu heimili!” sagði Jesús.

To Top