Týndi sonurinn

 http://barnatru.is/wp-content/uploads/2010/10/Tyndisonurinn.mp3

(Lúkas 15:11-32)

Pabbi, þegar þú deyrð, hver eignast þá alla peningana þína og allt sem þú átt?
– Þú, drengur minn. Þú eignast helminginn af öllu sem ég á en bróðir þinn fær hinn helminginn.
Vá! Við verðum þá ríkir þegar þú deyrð, sagði strákurinn og eitt andartak fór hann að láta sig dreyma um allt sem hann gæti gert fyrir peningana sem hann fengi. En svo fór hann að hugsa. Hann vildi alls ekki missa pabba sinn. Það væri alls ekki gaman að fá alla peningana þegar hann væri dáinn, því þá yrði hann svo sorgmæddur. Hann vildi frekar hafa pabba hjá sér en alla peningana í heiminum. En brátt fór strákurinn aftur að hugsa um hvað hann gæti gert fyrir peningana. Hann gæti ferðast fyrir þá og keypt sér falleg föt. Svo gæti hann búið í dýru og fínu húsi sem hann gæti keypt sér og haft þjóna á hverjum fingri.
Allt í einu fékk hann snjalla hugmynd. – Pabbi, get ég ekki bara fengið minn hlut af peningunum strax, fyrst ég á að fá þá hvort sem er?
Pabba stráksins þótti ákaflega vænt um hann og vildi allt fyrir hann gera. Þótt honum litist ekki vel á hugmyndina þá ákvað hann samt að láta son sinn fá peningana. Strákurinn tók græðgilega við þeim og ákvað síðan að fara út í heiminn og freista gæfunnar.
Hann byrjaði á því að fara til borgarinnar. Þar eyddi hann peningunum sínum í skemmtanir, sælgæti, dýran og fínan mat og alls kyns óþarfa. Hann eignaðist fullt af nýjum vinum og eyddi peningunum líka í þá. En einn góðan veðurdag voru allir peningarnir búnir. Það var ekki ein króna eftir. Hann reyndi að fá vini sína til þess að lána sér svolitla peninga en þeir vildu ekki vera vinir hans lengur og brátt var strákurinn aleinn eftir. Strákurinn varð að fá sér vinnu. En það var ekki auðvelt. Loks fékk hann vinnu við það að hugsa um svín á bóndabæ nokkrum í útjaðri borgarinnar. Í laun fékk hann að borða sama mat og svínin. Svínin voru ekki hreinleg og maturinn þeirra var ógeðslegur.
Nú sá strákurinn eftir því að hafa farið svona illa að ráði sínu. Hann langaði að fara aftur heim til pabba síns. En hann skammaðist sín svo mikið fyrir það að hafa eytt öllum peningunum í vitleysu að hann þorði varla að fara til hans aftur. En hvað gat hann svo sem gert? Allt í einu fékk hann hugmynd. Hann gæti verið vinnumaður hjá pabba sínum. Hann þyrfti ekki að fá neitt kaup, bara mat að borða. Glaður og bjartsýnn lagði strákurinn af stað heim á leið. Eftir langa göngu sá hann glitta í hús pabba síns í fjarska. Þegar hann kom nær sá hann að einhver kom hlaupandi á móti honum. Hver gat þetta verið? Sá sem kom hlaupandi var með útbreiddan faðminn og hann hrópaði nafn hans: Jónatan! Ertu kominn heim? Nú sá strákurinn að þetta var pabbi hans. Strákurinn var glaður og feginn að sjá pabba sinn og þegar þeir mættust á veginum tók pabbinn strákinn sinn í stóra, mjúka og hlýja faðminn sinn og þrýsti honum að sér. Á leiðinni heim að húsinu sagði strákurinn við pabba sinn: – Pabbi, ég veit að ég gerði rangt. Ég á ekki skilið að vera sonur þinn. Leyfðu mér að vera hjá þér sem vinnumaður. En pabbinn lét sem hann heyrði þetta ekki og kallaði á þjónana sína og sagði við þá: – Útbúið stóra veislu. Sonur minn sem var týndur er fundinn.
Pabbinn elskaði son sinn þótt sonurinn hefði gert ýmislegt af sér.
Svona elskar Guð öll sín börn heitt og jafnvel enn heitar en pabbinn í sögunni. Hann tekur á móti öllum í mjúka, hlýja og stóra faðminn sinn.

To Top