Nói og flóðið

Börn fæddust og uxu úr grasi. Mönnunum fjölgaði. Guð leit yfir heiminn og sá mennina.

Það var skelfilegt að sjá hvað þeir voru vondir. Þeir rifust mikið og beittu valdi. Mennirnir höfðu gleymt Guði og voru vondir hver við annan. Guð ákvað að losa heiminn við allt hið illa sem mennirnir höfðu hugsað og gert. Gífurlegt flóð myndi koma yfir jörðina.

En það var einn maður sem var friðsamur og treysti Guði. Hann hét Nói.

,,Þú skalt smíða stórt skip,” sagði Guð við Nóa. ,,Stóra og mikla örk.”

Og Nói hófst þegar handa við smíðina. Guð lýsti því hvernig örkin ætti að vera. Nói fór eftir fyrirmælum Guðs og smíðaði örk sem var þrjár hæðir og í henni voru herbergi fyrir menn og dýr.

Það tók að rigna og Nói gekk um borð í örkina ásamt konu sinni. Synir þeirra gengu einnig um borð og sömuleiðis konur þeirra.

Allar tegundir dýra fóru líka inn í örkina.

Dyrunum var síðan lokað.

Það rigndi og rigndi. Hellirigndi. Vatn flaut um allt og örkin lyftist upp. Nói bjó í örkinni ásamt fjölskyldu sinni og öllum dýrunum.

Margir mánuðir liðu. Það var eyðilegt um að litast á jörðinni. En skyndilega…

Yfir allri auðninni bærðist vindur, það var andblær Guðs. Vindurinn lék um alla jörðina og vatnið tók smám saman að sjatna.

Nói opnaði gluggann og skimaði í allar áttir. Hann sá til fjalla og hleypti þá dúfu út en hún sneri aftur eftir skamma stund. Sjö dögum síðar sleppti hann dúfunni aftur lausri. Þegar hún kom til baka í þetta sinn bar hún fagurgrænt laufblað í nefi sínu. Þá vissi Nói að vatnið var að sjatna. Næst þegar Nói sleppti dúfunni sneri hún ekki aftur.

Nú gátu menn lifað í sátt og samlyndi á jörðinni. Allir gengu út úr örkinni, menn og dýr. Lífið myndi halda áfram, með skini og skúrum, með sumri og vetri.

Guð dró regnbogann upp á himininn og lofaði því að aldrei skyldi slíkt og þvílíkt flóð koma yfir jörðina aftur.

 

To Top